151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

börn á biðlistum.

[13:07]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Af því að hv. þingmaður nefnir hér tilteknar upphæðir þá hefur á tímabili mínu í heilbrigðisráðuneytinu framlag til reksturs í geðheilbrigðisþjónustu aukist að núvirði um milljarð á ári. Þar að auki höfum við bætt í geðheilbrigðisþjónustuna 540 milljónum á síðasta ári og 540 á þessu ári vegna Covid og viðbragða því tengdum. Nú stendur yfir samstarf milli mín og hæstv. félags- og barnamálaráðherra um að greina biðlistana sem hv. þingmaður talar um, og koma með tillögur til að draga úr bið eftir þjónustu. Það er heildræn greining fyrir landið allt vegna þess að það dugar ekki að horfa á einn tiltekinn stað heldur þurfum við að sjá þetta fyrir landið allt. Það stendur fyrir dyrum að við fáum niðurstöðu úr þeirri greiningu, þessari flöskuhálsagreiningu, hvar hindranirnar í kerfinu eru, og ég fullvissa hv. þingmann um að aðgerðir munu fylgja.