151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

brottfall aldurstengdra starfslokareglna.

324. mál
[16:21]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir flutningsræðuna og þakka þingmanninum jafnframt fyrir samstarfið við þessa tillögugerð og þann tillögupakka sem þingmaðurinn kom inn á að við hefðum flutt ásamt hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni. Í mínum huga verður taka mannréttindavinkilinn á þetta. Við verðum í rauninni alltaf að skoða, ekki bara réttindi eldra fólks heldur réttindi fólks í samfélagi þannig að við séum ekki með óþarfa hindrunum eða óþarfa lagasetningu eða skilmerkjum að skerða þau réttindi sem fólk hefur til að lifa því lífi sem það kýs í því samfélagi sem það býr í.

Við eigum sem samfélag að bera virðingu fyrir stöðu fólks og menntun. Það er a.m.k. mín skoðun. Með því að afnema aldurshindranir, eins og lagt er til, erum við í rauninni að horfast í augu við, ekki bara það að við ætlum að taka á mannréttindavinklinum, heldur erum við líka að horfast í augu við að samfélagið er að breytast. Hugsunarhátturinn um að það sé eftirsóknarvert að setjast í helgan stein með áherslu á að setjast fer sem betur dvínandi. Það hefur enginn áhuga á því að vera þvingaður til að hvíla sig þegar hann vill ekki hvíla sig. Það hefur enginn áhuga á að vera þvingaður út af vinnumarkaði þegar hann hefur fulla starfsgetu. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli.

Við höfum svo sem áður rætt þetta og þetta hefur verið rætt í víðara samhengi en kemur fram í þessari tillögu. Til að mynda á árunum 2003–2007 þegar unnið var að gerð nýrra heilbrigðislaga kom þessi vinkill upp í þeirri umræðu, þ.e. hvort samfélagið væri tilbúið að taka burt úr öllum lögum einhvers konar aldursviðmið með tilliti til þjónustu eða þjónustuþarfar og þess háttar, en miða fremur við þörfina á því að fá þjónustu, og þá eins og í þessari tillögu að miða frekar við getuna, hvort einhver geti raunverulega unnið, frekar en að horfa til þess hvað hann eða hún kann að vera gamall eða gömul í árum.

Á þeim tíma komumst við að þeirri niðurstöðu, man ég, að samfélagið væri ekki alveg tilbúið. Við værum ekki alveg komin þangað. Núna hins vegar, einum 15–20 árum síðar, er staðan sú að jafnvel á þessum tiltölulega stutta tíma hefur samfélagið breyst mikið. Bara á þessu tímabili hefur til að mynda væntanlegur lífaldur fólks við fæðingu lengst töluvert og aldursviðmiðið 67–70 er í rauninni algjörlega komið úr takti við raunveruleikann sem við búum við sem samfélag. Ég held að ég muni það rétt að upprunalega hafi 67 ára viðmiðið verið miðað við að ef menn hættu að vinna þá, gætu þeir vænst þess að jafnaði að lifa í fimm til sex ár í viðbót og þess vegna væri ekkert óeðlilegt að þeir hættu að vinna á þeim tíma. Íslendingur sem nær 70 ára aldri í dag er að jafnaði, aðeins mismunandi eftir kynjum, með lífslíkur þaðan í frá upp á ein 15 ár, plús/mínus.

Þá spyr maður sig, sérstaklega ef fólk er heilt heilsu og hefur starfsþrek: Hvers vegna í ósköpunum ekki að notfæra sér þá möguleika sem felast í því, og, eins og hv. þm. Guðjón S. Brjánsson kom inn á, notfæra sér reynsluna, notfæra sér þekkinguna, nota tækifærin sem felast í því að nema af þessum eldri einstaklingum og flytja þekkinguna áfram á milli kynslóða? Ég tek líka undir það sem hv. þingmaður kom inn á, að auðvitað þarf að horfa til þess að það er í tilteknum starfsgreinum þar sem færnikröfur eru annaðhvort mjög miklar eða mjög sértækar, að það kunni að vera ástæða til að takmarka það með einhverjum hætti, eða þá að alþjóðasamningar takmarki með einhverju móti hvað við getum gert. En engu að síður, svona stórt séð, þá snúast nútímastörf ekki um líkamlega burði. Þau snúast í rauninni ekki um það.

Eins og komið hefur verið inn á hér í dag þarf að ræða þessi mál í samhengi við aðila vinnumarkaðarins og auðvitað eiga aðilar vinnumarkaðarins og hagsmunaaðilar aðrir að koma að þessu. En til að mynda gætu sveitarfélögin, sem eru gríðarstór vinnuveitandi á Íslandi, horft til þess að þurfa ekki að ráða t.d. vana eða góða kennara sem verktaka eða eitthvað slíkt þegar það vantar kennara, þau gætu hreinlega ráðið þessa kennara vegna þess að þeir væru góðir kennarar og fengið þá til að starfa áfram. Og þannig mætti lengi telja.

En fyrst og síðast snýst þessi tillaga um að tryggja annars vegar að við séum ekki með fordóma gagnvart fólki á grundvelli aldurs, og hins vegar að tryggja fólki að ekki sé verið að skerða réttindi þess að nauðsynjalausu út af einhverjum, ja, við skulum segja dálítið gömlum hugmyndum um það hvenær einstaklingur er orðinn gamall og farlama. Gamalt fólk eða eldra fólk er gríðarlega fjölbreyttur hópur og það er í besta falli sérkennilegt að ætla að halda sig við einhver tiltekin aldursviðmið þegar við ættum að láta færnina og ráða og vilja einstaklingsins. Og það er það sem er svo mikilvægt við þessa tillögu. Ég fagna því að hún sé komin fram aftur.