151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

réttindi sjúklinga.

563. mál
[16:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að segja nokkur orð í lok þessarar stuttu en mikilvægu umræðu um þetta mál sem ég hugsa þá kannski sem nesti að hafa með inn í nefndina því að ég held að þær ábendingar sem hafa komið hér fram séu allar mikilvægar. Það eru sambærileg ákvæði um beitingu nauðungar og þvingunar í lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011. Ég held að mikilvægt sé að skoða þau ákvæði, a.m.k. að kanna hversu vel þær heimildir hafa nýst og hversu skýrar þær hafa verið vegna þess að sannarlega mun þetta alltaf verða háð einhverju mati. Ég held að við getum aldrei haft það þannig að heimildir af þessu tagi séu með einhverjum hætti vélrænar eða fyrirsjáanlegar á allan hátt. En það sem er ákveðinn og mikilvægur öryggisventill er þessi fortakslausa skráning. Það kom aðeins fram í umræðunni áðan að mikilvægt væri að hnykkja á því en það er svo í frumvarpinu að skyldan um að skrá tilvik, og hvert einasta tilvik, er fortakslaus.

Hér hafa aðeins verið nefnd sjónarmið sem lúta að endurskoðun lögræðislaga. Það er auðvitað stórt mál og ég held að við vildum öll að sú vinna væri komin lengra, einmitt í ljósi þess að hún varðar svo stór og mikilvæg svið í mannréttindum. Þetta varðar grundvallarmannréttindi. Það eru mál sem þarf virkilega að taka til umfjöllunar og þingið hefur tekið ákvörðun um að gera það. Það sem hér er lagt fram er einn angi af því í raun og veru en kemur til af því að þessi endurskoðun er brýn. Það verður ekki við svo búið lengur að við séum ekki a.m.k. með viðleitni til þess að hafa skýran lagagrunn þarna.

Vegna þess að hér var kallað eftir stefnumótun og stefnumörkun í geðheilbrigðismálum vil ég nefna að ég naut þess þegar ég tók sæti sem heilbrigðisráðherra að þingið hafði samþykkt þingsályktun um áætlun um geðheilbrigðismál og uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu. Sú samþykkt Alþingis, sem ég held að hafi verið einróma og allir þingmenn hafi greitt atkvæði með, er frá árinu 2016. Það sem er gert í mínum tíma er að fullfjármagna þá áætlun og tryggja m.a. annars stigs þjónustu í formi geðheilsuteyma um allt land. Það er nýtt, þessi annars stigs þjónusta var ekki áður. Á árinu 2020 erum við að þjónusta 2.600 manns með þessu úrræði, 2.600 manns sem þurftu að leita úrræða annars staðar áður. Með þessum aðferðum erum við vonandi að sinna þeim sem búa við geðheilsuvanda fyrr í heilbrigðisþjónustunni, með fleiri sálfræðingum á fyrsta stiginu en líka með geðheilsuteymum á öðru stiginu til að draga úr álagi á þriðja stigi. Ég held að þetta sé afar mikilvægt út frá meginreglunni um að við viljum að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað, að fólk búi ekki við að fá ekki þjónustu fyrr en það er komið í djúpan og flókinn vanda.

Eftir að hafa verið í embætti í nálægt fjögur ár tel ég að við þurfum að halda áfram að sækja fram í geðheilbrigðismálum. Við höfum tekið mjög mörg stór skref á þessu kjörtímabili. Eitt af því er þarfagreining að því er varðar húsnæði, mönnun og annan umbúnað þjónustunnar. Ég tel að við leysum ekki mál með því að taka ákvörðun um eina tiltekna byggingu. Við þurfum að taka ákvörðun um næstu skref í uppbyggingu Landspítala við Hringbraut á Landspítalalóð og þar með talið öfluga göngudeildarþjónustu sem er samþætt göngudeildarþjónusta, bæði fyrir geðheilbrigðisþjónustu og aðra heilbrigðisþjónustu. Þetta verður að haldast í hendur við aðra stefnumótun.

Virðulegi forseti. Af því að í andsvari áðan var vikið að þeim möguleika að þetta mál gæti á einhvern hátt verið partur af flokkspólitískum línum þá held ég að mikilvægt sé að því sé algjörlega til haga haldið að þegar ég legg málið fram til meðferðar í hv. velferðarnefnd vænti ég þess að öll velferðarnefnd og allt þingið sé þannig innstillt gagnvart málinu að við séum fyrst og fremst að reyna að ná vel utan um það vegna þess hversu viðkvæmt það er og að við viljum vanda til verka. Hér er um að ræða viðfangsefni sem ætti að vera hafið yfir pólitískar skotgrafir, virðulegi forseti.