151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:10]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu þurfa þeir gestir sem koma fyrir nefndir Alþingis að geta treyst því að trúnaður ríki um orð þeirra sem þeir láta falla í samtölum við nefndarmenn. Sá trúnaður hefur ekki verið rofinn og það hefur ekki komið fram að sá trúnaður hafi verið rofinn þótt ásakanir um slíkt hafi verið nokkuð háværar frá hendi stjórnarliða í fjölmiðlum. Almennt talað ríkir sterkari trúnaðarkrafa hér um vandamál en kannski er ástæða til. Okkur eru í fersku minni símtöl Donalds Trumps Bandaríkjaforseta við yfirmann kosningaeftirlits í einu ríkja Bandaríkjanna þar sem hann fór fram á að viðkomandi fyndi fyrir sig atkvæði. Við lásum þessi símtöl lið fyrir lið, orð fyrir orð, heimsbyggðin öll. Það ríkti ekki trúnaður um þau. Trúnaðarskylda hér um (Forseti hringir.) símtöl ráðamanna við undirmenn sína virðist vera ríkari meðal íslenskra ráðamanna en hjá Donald Trump í Bandaríkjunum.