151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

launamunur kynjanna.

[13:53]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Daginn fyrir alþjóðlegan baráttudag kvenna tilkynnti menntamálaráðherra um áfrýjun á dómi héraðsdóms og hélt þannig áfram málaferlum gegn konu sem taldi sér mismunað á grundvelli kyns. Kærunefnd jafnréttismála hafði úrskurðað að svo hefði verið. Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna lögðu níu konur fram kærur til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna málsmeðferðar í íslenska réttarkerfinu. Daginn eftir alþjóðlegan baráttudag kvenna bárust fréttir af því að í stað þess að nota hinn eðlilega farveg innan réttarfarsnefndar hafi dómsmálaráðherra ákveðið að fela Jóni Steinari Gunnlaugssyni að vinna nauðsynlegar endurbætur á réttarkerfinu. Allt þetta sendi slæm skilaboð til þeirra kvenna sem vilja leita réttar síns, jafnvel þó að hæstv. forsætis- og jafnréttisráðherra hafi hringt bjöllunni fyrir jafnrétti í Kauphöllinni sama dag.

Önnur stórfrétt fór fyrir ofan garð og neðan og hún sneri að kerfisbundnu launamisrétti kynjanna. Í nýuppfærðri Tekjusögu stjórnvalda birtist sláandi munur á tekjum karla og kvenna. Þar kemur fram að menntun kvenna gagnist þeim síður til tekna. Því meira sem konur mennta sig, því meiri verður munurinn á milli þeirra og karla. Kona með meistaragráðu getur vænst þess að fá 100.000 kr. minna í laun en karl með BA-gráðu. Ég veit að starfshópur um launamun kynjanna hefur starfað í a.m.k. eitt ár og því spyr ég hæstv. ráðherra: Ætlar hún að leggja áherslu á að flýta vinnu starfshópsins í ljósi þessara tíðinda, hóps sem átti að koma með tillögur um aðgerðir til að útrýma launamun kynjanna? Eða hefur hún sjálf einhverjar hugmyndir um það hvernig á að uppræta þennan launamun í eitt skipti fyrir öll?