151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

varnarmálalög.

485. mál
[13:33]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni, ég ætla bara að leyfa mér að segja stuðninginn, í það minnsta við að halda þessu máli áfram og koma því í eðlilegan farveg innan þings. Ég hjó eftir því og man vel eftir umræðum okkar hv. þingmanns í fyrra að hv. þingmaður tók einmitt á jákvæðan hátt í málið þó að okkur þingmann greini á um veru erlends herliðs hér á landi. Einnig hjó ég eftir því hvernig hv. þingmaður talaði í gær um þetta og mér þykir vænt um að við getum nálgast þetta mál saman þrátt fyrir ólík sjónarmið. Það er einmitt það sem ég vildi óska að fleiri, sem eru sammála hv. þingmanni um aðild okkar að varnarbandalaginu NATO eða hernaðarbandalaginu NATO og veru herliðs hér á landi, gætu séð. Þetta snýst ekki um það heldur um að efla Alþingi, efla lýðræðislega umræðu um málið.

Ég sagði í flutningsræðu minni, forseti, að ég hefði orðið fyrir vonbrigðum með lyktir málsins í fyrra. Ég varð fyrir vonbrigðum með það að málið fengi ekki meiri umfjöllun í hv. utanríkismálanefnd. Ég varð fyrir vonbrigðum með að málið kæmi ekki úr utanríkismálanefnd hingað inn í þingsal.

Ég hef að sjálfsögðu rætt við fólk í samstarfsflokkunum og ég hef að sjálfsögðu rætt við ráðherra málaflokksins um að ég væri að flytja þessi mál. Ég hlýt að lesa í það að málið náði ekki í gegn að ekki deila allir þeirri skoðun minni að þetta sé eitt af þessum mikilvægu málum. Ég ætla að láta reyna á það núna að fólk átti sig á því áður en ég fer að plana hér plan B og C. Ég er enn að vinna með plan A.