151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[15:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Skoðun hv. þingmanns er vissulega ekki 50 ára gömul en hún er jafn röng og hún var fyrir 50 árum. Það er reyndar svo, og nú er ég bara að tala um nokkur síðustu ár, að lífslíkur íslenskra karla hafa skerst um nokkur ár. Ég ætla ekki að setja það í samhengi við áfengisneyslu en það gæti alveg eins verið að svo væri. Það er líka svo varðandi lífslíkur Íslendinga, sem voru hér áður og fyrr með því hæsta sem gerist í Evrópu, að við erum ekki lengur á toppnum í Evrópu. Við höfum látið það af hendi. Af hverju er það? Það er ekki einhlít skýring á því.

Ég segi aftur: Það sem hv. þingmaður hefur fært fram í þessari umræðu eru rökleysur sem byggja ekki á neinu. Hann afneitar vísindalegum rannsóknum, hann afneitar lýðheilsurannsóknum og lýsir bara frati á þær, ef ég get orðað það þannig, herra forseti. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Ég segi aftur: Ég vona sannarlega að hv. þingmaður nálgist ekki önnur mál með því að kasta rýrð á það sem sérfræðingar hafa til málanna að leggja, að kasta rýrð á rannsóknir sem gerðar hafa verið þó að hann sé ekki sammála þeim. Við tökum öll þátt í því hér í þessum þingsal að reiða okkur á sérfræðiálit í hinu og þessu, skárra væri það nú ef við gerðum það ekki. Yfirleitt þegar við gerum það ekki þá verða vandamál og við þekkjum þau af ákvörðunum Alþingis í gegnum tíðina sem sumar hafa verið slakar. Slakastar hafa þær verið þegar Alþingi tekur ekki mark á sérfræðiráðgjöf sem því er veitt og slakastar eru ákvarðanirnar þegar alþingismenn taka ekki mark á þeim sérfræðingum sem mæta fyrir nefndir og hafa uppi varnaðarorð.