151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[16:12]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Kirkjujarðasamkomulagið snýst um greiðslu fyrir eignir. Það byggir á afhendingu á eignum til ríkisins og hefur ekkert sérstaklega með þetta frumvarp að gera. (Gripið fram í.)En það hefur kannski heldur ekkert með aðskilnaðinn að gera heldur greiðslu á móti fyrir eignir sem þarf auðvitað að leysa úr. Það er stærra viðfangsefni og þarf að leysa með víðtækari hætti. Samkomulagið sem var gert var eitt skref í því en líka skref í að auka sjálfstæði kirkjunnar, að hún færi sjálf með fjárhagsleg málefni sín. Með því held ég að stigið hafi verið eitt skref í þá átt sem hv. þingmaður vísar í. Sóknargjöld eru auðvitað til að jafna aðstöðu milli trúfélaga. Þar er jöfnunin. Önnur trúfélög fá einnig greidda fjármuni af greiddum sóknargjöldum ef viðkomandi er skráður í viðeigandi trúfélag. Þannig að það má líka passa sig að hræra þessu ekki saman í einn hrærigraut. Við erum að einfalda reglur um þjóðkirkjuna, auka sjálfstæði hennar, einfalda regluverkið og fella á brott hin ýmsu lög og tilskipanir frá einhverjum öldum síðan. Það er mikilvægt skref í þessari vegferð. En ég held að hún verði farsælust ef hún er tekin í nokkrum skrefum eins og lagt er til hér.