151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

loftferðir.

586. mál
[17:36]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka aftur andsvarið sem gæti hljómað eins og meðsvar, en ég vona að það falli ekki utan reglna. Það er einfaldlega þannig, svo að ég ítreki það sem ég sagði áðan, að EASA-reglugerðin kveður einmitt á um tiltekinn sveigjanleika sem er ætlunin að nýta hér og þá í samráði við hagsmunaaðila við hina eiginlegu innleiðingu gerðarinnar, að því gefnu að frumvarpið verði orðið að lögum nú í vor eða sumar. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að EASA-regluverkið vegur þungt í frumvarpinu. En eins og hv. þingmaður nefndi er í þessu evrópska regluverki ESB þegar verið að létta verulega á regluverki gagnvart smærri og léttari loftförum. Þær gerðir bíða, þetta eru eitthvað um 30 gerðir, og hanga á innleiðingu þessarar EASA-reglugerðar sem frumvarpið smíðar síðan umgjörðina um. Verði frumvarpið að lögum er ráðgert að endurnýja regluverkið að verulegu leyti.

Varðandi síðustu spurningu hv. þingmanns um 91. gr. þá verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki það ákvæði og skal koma svarinu til hv. þingmanns.