151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Skýrsla þessi er flutt á Alþingi í samræmi við ný ákvæði sóttvarnalaga þar sem segir að ráðherra skuli upplýsa Alþingi um sóttvarnaaðgerðir með mánaðarlegri skýrslugjöf, enda hafi aðgerð varað lengur en í tvo mánuði. Ég hef átt þess kost að eiga orðastað við Alþingi oft áður en nú er það gert í samræmi við þennan umbúnað í lögum. Það er óhætt að segja að staðan á heimsfaraldrinum hér á landi sé góð. Við höfum náð góðum árangri í baráttunni við faraldurinn og þann árangur má þakka þjóðinni allri. Við höfum staðið saman, við höfum fylgt reglunum, við höfum sýnt varkárni og þolgæði á þessum fordæmalausu og krefjandi tímum.

Í nýrri könnun Gallup var spurt um afstöðu fólks á Íslandi til sóttvarnaaðgerða stjórnvalda vegna Covid-19. Niðurstaðan er sú að alls eru 92% landsmanna ánægð með aðgerðirnar. Lítill munur er á afstöðu til sóttvarnaráðstafana eftir búsetu og þeir sem mælast fullkomlega ánægðir, mjög ánægðir eða frekar ánægðir eru samanlagt 92%, eins og áður segir, og er það sama niðurstaðan hvort sem litið er til Reykjavíkur, nágrannasveitarfélaga eða annarra sveitarfélaga á landsbyggðinni. Það er mjög gott að sjá þessar niðurstöður og finna að almenningur ber traust til þeirra aðgerða sem grípa hefur þurft til vegna faraldursins og fyrir það er þakkað hér.

Takmarkanir eru trúlega hvergi minni í Evrópu en hér á landi einmitt núna og óendanlega mikilvægt er að varðveita þann góða árangur og fara varlega áfram. Um tíma leit út fyrir að við gætum verið að fá nýtt hópsmit en sem betur fer virðist svo sem unnt hafi verið að koma í veg fyrir það með markvissum sóttvarnaaðgerðum. Sóttvarnalæknir lagði það til við mig nú um nýliðna helgi að halda samkomutakmörkunum innan lands að mestu óbreyttum. Í gær voru kynntar óverulegar breytingar á sóttvarnaráðstöfunum sem taka gildi á morgun og byggja í meginatriðum á tillögum sóttvarnalæknis og fela fyrst og fremst í sér auknar kröfur um skráningu gesta og smitgát í tengslum við viðburði. Þá eru líka gerðar ríkari kröfur til sóttvarnaráðstafana þar sem boðið er upp á hlaðborð. Gildistími þessarar reglugerðar er til 9. apríl næstkomandi. Reglur um 50 manna fjöldatakmörk, 2 metra reglan, grímuskylda í almenningssamgöngum, verslunum o.s.frv. verða því í gildi eitthvað áfram með það markmið og leiðarljósi að faraldurinn breiðist ekki út innan lands.

Í fyrrnefndu minnisblaði sóttvarnalæknis sem hann skilaði til mín um helgina eru tillögur að breytingum á aðgerðum á landamærum. Þær tillögur eru í skoðun í ráðuneytinu og frá þeim verður greint í smáatriðum þegar endanleg ákvörðun liggur fyrir. Í gær sögðum við þó frá þeirri breytingu að vottorð um bólusetningu gegn Covid-19 og vottorð um fyrri staðfesta Covid-sýkingu verði tekin gild á landamærum Íslands hvort sem þau eru upprunnin innan EES-svæðisins eða utan þess að því tilskildu að þau uppfylli sömu kröfur og leiðbeiningar sóttvarnalæknis. Einstaklingar sem framvísa slíkum vottorðum þurfa hvorki að fara í sýnatöku eða sóttkví né framvísa vottorði um neikvætt PCR-próf á landamærum. Í minnisblaði sóttvarnalæknis segir, með leyfi forseta:

„Bólusetningarvottorð og vottorð um fyrri Covid-sýkingu utan EES-svæðisins verði tekin gild eins og vottorð innan EES-svæðisins. Sömu kröfur verði gerðar til allra vottorða.“

Þetta er tillaga sóttvarnalæknis sem ég fer að í einu og öllu.

Reglugerð um för yfir landamæri sem heyrir undir dómsmálaráðherra verður breytt þannig að almennt bann við tilefnislausum ferðum þriðja ríkisborgara yfir ytri landamæri nær ekki til einstaklinga sem eru með umrædd vottorð. Það er jafnframt algerlega í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis.

Bólusetningar ganga vel hér á landi. Nú hafa 13% þjóðarinnar fengið fyrsta skammt bóluefnis eða báða. Það eru 36.755 einstaklingar. Við í heilbrigðisráðuneytinu greindum frá því í byrjun árs að ætlunin væri að um 45.000 einstaklingar hefðu fengið bóluefni hér á landi í lok mars en miðað við áætlanir verður þessi tala um 43.000 manns svo að áætlanir okkar standast að því leyti.

Ný könnun MMR sem var framkvæmd í mars 2021 sýnir að bólusetningarvilji landsmanna er mikill. Um 94% landsmanna hafa þegið eða hyggjast þiggja bólusetningu gegn Covid-19 og það er jákvætt að mikill meiri hluti landsmanna hyggst þiggja þessa bólusetningu. Dreifingaráætlanir fyrir annan ársfjórðung liggja ekki fyrir en það er von á því að þær berist fljótlega. Bólusetning gengur vel um allt land. Bólusetningu heilbrigðisstarfsfólks sem er bólusett með AstraZeneca hefur verið frestað tímabundið í varúðarskyni vegna tilkynninga um hugsanlegar aukaverkanir. Málið hefur verið til athugunar hjá Lyfjastofnun Evrópu og er að vænta niðurstöðu af þeirri rannsókn á morgun. Í framhaldi af því verður tekin afstaða til áframhaldandi notkunar efnisins hér á landi. (Forseti hringir.) Þá hóf sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu áfangamat á Covid-19 bóluefninu Spútnik á dögunum og íslensk stjórnvöld fylgjast með þróun mála hjá lyfjaefnaframleiðandanum.