151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:41]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég myndi vilja byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þá umræðu sem við eigum hér í dag og höfum átt um þessi mál. Ég tel að það sé mjög af hinu góða að skýrslugjöf hæstv. ráðherra sé með jafn reglubundnum hætti og raunin hefur verið.

Ég ætla að hafa þetta stutt. Við þekkjum það öll að samfélagið allt hefur fært miklar fórnir, mismiklar þó. Efnahagslega höggið hefur verið þungt, misþungt þó. Það er kannski einkenni á þessari baráttu allri að þau eru mjög misþung, höggin sem á samfélaginu hafa dunið. Ég hef áhuga á að fá að vita hvenær við nálgumst hið fyrra eðlilega norm hér innan lands. Við erum svo lánsöm að staðan innan lands er mjög góð, ég held að það sé ekki hægt að lýsa því með neinum öðrum hætti. Hvað sér hæstv. ráðherra fyrir sér í þeim efnum, og þá með tilliti til þess sem hér er verið að boða núna? Verða þessar breytingar hæstv. dómsmálaráðherra mögulega til að við hægjum á því ferli að veita almenningi hér innan lands eðlilegt líf aftur?