151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega rétt að ef við erum í þeirri stöðu eftir morgundaginn að ef AstraZeneca verður komið út úr áætlunum okkar hefur það auðvitað heilmikil áhrif. Ef ég man rétt gerum við ráð fyrir því að 76.000 skammtar af því efni séu hluti af áætlun okkar á öðrum ársfjórðungi. Ef sú tala er úti seinkar það áætlunum okkar sem því nemur. Að sama skapi erum við ekki með áætlanir sem snúast um Janssen-bóluefnið inni í plönum okkar. Þar keyptum við 235.000 skammta þar sem einn skammtur dugar fyrir hverja bólusetningu. Þetta er nú svona dæmi sem rekur sig fram og til baka og það skiptir auðvitað máli þegar við erum að skoða dæmið í heild að horfa til þess að upplýsingarnar eru að koma til okkar frá degi til dags. Á morgun liggur væntanlega fyrir niðurstaða Lyfjastofnunar Evrópu um AstraZeneca. (Forseti hringir.) Sú niðurstaða mun að líkindum verða grundvöllur niðurstöðu íslenskra stjórnvalda og á grundvelli þess munum við taka ákvarðanir um framvinduna.