151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[15:32]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er meðvituð um þá stöðu sem er í heiminum. Það eru mjög margir á flótta og neyðin er mjög mikil. Þess vegna þurfum við að gera vel og hafa verndarkerfið okkar þannig að það sé í stakk búið, með þeim fjármunum sem við veitum í það, til að taka á móti fólki sem þarf á vernd að halda. En það þarf líka að vera þannig að það sé sambærilegt í meginatriðum, svo að það sé ekki ákveðinn togkraftur hér sem gerir það að verkum að við ráðum illa við þann fjölda sem kemur og svörum þeim allt of seint sem sækja í fyrsta skipti um alþjóðlega vernd hér. Það er alveg ljóst að umsókn um alþjóðlega vernd er sambærileg og skilgreiningin á því hver þarf hana er sambærileg innan Evrópu en Evrópa þarf auðvitað að ræða saman um hvernig hún ætlar að mæta þeirri stöðu sem víðs vegar er uppi í álfunni.