151. löggjafarþing — 70. fundur,  18. mars 2021.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar.

590. mál
[13:58]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Ég vildi einungis koma hingað upp til að útskýra af hverju ég var ekki með á nefndarálitinu. Ég vil ekki að það skiljist þannig að Píratar séu mótfallnir því að lítil og millistór fyrirtæki fái aðstoð vegna erfiðleika í kjölfar Covid. Ég vildi bara koma því á framfæri að ég var ekki alveg að ná utan um það akkúrat hvernig þetta fór í gegnum nefndina, það var formlegi þátturinn sem var aðeins að trufla mig. Ég veit að þetta er bara til þess að framlengja þessar tilteknu dagsetningar en það kom líka fram í nefndinni að ekki væru mörg fyrirtæki búin að nýta sér þessar heimildir. Svo voru aðrir gestir sem settu sig kannski ekki endilega upp á móti þessu en voru svona að viðra tilteknar áhyggjur. Ég skil tilganginn með því að framlengja þessa fresti en ég áttaði mig kannski ekki alveg á markmiðinu. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra.