151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi Rannsóknastofu byggingariðnaðarins. Mig langar einmitt að nefna hana í mínu síðara andsvari vegna þess að þingmaðurinn talaði um hana sem millistig á milli atvinnulífs og fræðasamfélags, hagnýtar byggingarrannsóknir. Mér finnst þetta dálítið smart leið til að ramma þetta inn. Nýsköpunarmiðstöð er í heild sinni einhvers konar svoleiðis millistig og opinber stuðningur við nýsköpun þarf sennilega alltaf að vera millistig á milli fræðasamfélagsins, atvinnulífsins, annarra anga ríkisvaldsins, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka. Þetta á að vera grautarpottur og upp úr honum tökum við nýsköpunina inn í framtíðina með ausunni.

Af því að ég veit að þingmaðurinn býr líka að reynslu úr háskólasamfélaginu langar mig að velta upp með honum hvort sú breyting sé ekki ein sú háskalegasta í þessu frumvarpi, að taka Nýsköpunarmiðstöð sem getur, vegna þess einmitt að hún er á vegum hins opinbera, þjónað því hlutverki að vera miðpunktur allra þessara ólíku þátta, og færa hana yfir í eitthvert einkahlutafélagsform sem þar að auki er með þrengri fókus, sem þar að auki stígur skrefið í átt frá breiðri nýsköpun allra vísindagreina yfir í að vera með einhvern tæknifókus sem við hug- og félagsvísindamennirnir hljótum að vera sammála um að sé ekki eina leiðin til að stuðla að framþróun í samfélaginu. Það er ekki eina nýsköpunin sem er einhvers virði. Mig langar að velta því upp hvort þessi einkavæðing á Nýsköpunarmiðstöð geri afurðina sem út úr henni kemur hreinlega ekki miklu verr í sveit setta til að takast á við verkefni.