151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:24]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, maður hefur dálítið á tilfinningunni að þetta sé svona til að safna í sarpinn til að geta síðan sagt fyrir kosningar: Þetta og þetta lagði ég niður, til að geta talað við söfnuðinn og gumað af því við söfnuðinn að hafa lagt niður svo og svo mikið af opinberri þjónustu vegna þess að söfnuðurinn stendur í þeirri trú að opinberir starfsmenn svokallaðir, fólk sem starfar við opinbera þjónustu, séu einhvers konar þurfamenn eða óþurftarfólk sem er aldeilis öðru nær.

Mig langar í seinni ræðu að taka hér upp spurningu sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson kom með áðan um Evrópusambandið, hvort þangað sé ekki fyrirmynd að sækja um það hvernig við getum búið að nýsköpun og hvernig við getum búið að þessum greinum. Við getum stuðlað að tengingum eins og við erum að tala hér um og búið til styrkjakerfi. Ég spyr eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson spurði áðan hv. þm. Þorstein Sæmundsson við dræmar undirtektir: Er lausnin kannski sú að ganga bara alla leið í Evrópusambandið?