151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:21]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ánægjulegt að heyra hv. þingmann lýsa því góða samstarfi sem ríkti í nefndinni um vinnslu þessa máls. Í þessari umræðu tekur að vísu ekki þátt neinn fulltrúi þess meiri hluta og ætli ég verði þá ekki bara að taka að mér fyrir þeirra hönd að þakka fyrir þessi hlýlegu orð. Við vitum að hér virðist hafa ráðið för ákveðin trúarsetning um að það sé mjög mikilvægt að opinberar stofnanir séu lagðar niður og verkefni þeirra séu færð einkaaðilum, og virðist einu gilda hver starfsemin er hverju sinni. Aðalatriðið er að geta bent á að einhver tiltekin opinber stofnun hafi verið lögð niður og þá getur maður merkt við það. Er það tilfinning hv. þingmanns að ef hv. atvinnuveganefnd hefði getað fengið að vinna þetta mál óáreitt af þessum trúarsetningum og af þessari sýn ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra og hefði bara fengið að vinna málið í friði, þá hefði verið hægt að lenda því á farsælli hátt en nú virðist vera raunin og það gæti jafnvel enn verið möguleiki á því að hv. nefnd gæti tekið málið fyrir á ný og reynt að greiða úr þeim annmörkum sem augljóslega eru á málinu?