151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[19:52]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nefndin fór kannski ekki í að útfæra ákveðnar leiðir, hvernig hægt væri að breyta þeirri stöðu sem drengir eru í samkvæmt tölfræðinni sem við höfum. Það þarf að fara í þá vinnu eins og við minnumst á í nefndarálitinu. Það er nú svo, og það á ekki bara við um drengi, að við erum á hverjum tíma alltaf með ólíkt fólk, með ólíkar þarfir, fólk með fatlanir, raskanir, af ólíkum kynjum, af ólíkum uppruna o.s.frv., sem þarf ólíka nálgun. Þess vegna segi ég fyrir mitt leyti að við þurfum kannski að hafa meiri fjölbreytni og meira úrval, ólíka nálgun menntastofnana. Fólk gæti þá kannski haft meira val á milli skóla eftir atvikum, eftir því sem hentar. Við erum kannski enn svolítið föst í forminu. Þetta eru hugleiðingar sem við þurfum vissulega að horfa til í vinnunni fram undan en nefndin sem slík fór ekki í að ímynda sér einhverjar mögulegar leiðir varðandi drengina enda erum við ekki endilega sérfræðingar á því sviði. En þetta er verkefni sem þarf að skoða í vinnu við þetta mál.