151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[20:26]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er ástæða til að fagna menntastefnu 2020–2030. Ég ætlaði að koma hingað upp og ræða við hv. þingmann það sem snýr að lýðheilsu. Í farvatninu frá hæstv. heilbrigðisráðherra er lýðheilsustefna. Nú tek ég fram að skólastarf og menntaumhverfi er svo fjölbreytt og skólastigin mörg spanna mikilvæg mótunarskeið í lífi hvers og eins einstaklings og það er auðvitað ómögulegt að setja fram menntastefnu sem er tæmandi listi yfir allt. En í þessari ágætu menntastefnu setjum við fram ákveðna sýn og meginmarkmið. Í þrískiptingu innleiðingaráætlunar fáum við væntanlega að sjá áfangamarkmið og kostnaðarmetnar aðgerðir. Í þessari lýðheilsustefnu sem ég hef lesið, og var í samráðsgátt, er lögð áhersla á að hún sé skrifuð inn í allar aðrar stefnur. Hér eru ágætiskaflar sem snúa að læsi og í lýðheilsustefnu er mikið talað um heilsulæsi til að efla og styðja einstaklinginn í því að taka ábyrgð á eigin heilsu og því sem snýr að forvörnum. Í kaflanum D.1 er líka talað um heilsueflingu og í D.6 um vellíðan, en (Forseti hringir.) hvergi er minnst á lýðheilsu og stuðning við einstaklinginn að því marki. Það er heldur ekki talað um heilsulæsi eins og gert er í lýðheilsustefnu. Ég ætla að koma að beinum spurningum í seinna andsvari.