151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[22:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Mig langar aðeins að ræða við hann um gúmmítékka. Jú, ég er eiginlega á því að það sé gúmmítékki að tala svona um geðrækt en eiga litla sem enga innstæðu, hafa engar lausnir og ná engu samtali við bankastjórann um það hvernig maður ætli að koma sér út úr þessu eða leysa mál sem varðar það að kaupa eitthvað eða leggja inn fyrir tékkanum sem maður er búinn að skrifa. Þá er kannski spurningin, af því að við erum að tala um geðrækt, hvort þingsályktunartillagan sé mögulega heilt ávísanahefti sem má brúka með þessum hætti. Það voru nefnilega 20 blöð í hverju ávísanahefti og á sínum tíma var hægt að skrifa ansi mikið á þau blöð án þess að nokkur spyrði hvort eitthvað væri til inni á bankareikningum.

Varðandi það að brúa bilið frá fæðingarorlofi til leikskóladvalar er alveg rétt að sveitarfélögin eru mjög misjafnlega í stakk búin. Vissulega er verið að fjölga mjög plássum í Reykjavík og byggja margar ungbarnadeildir hér til að gera það. En því miður skilar formaður Framsóknarflokksins og hæstv. sveitarstjórnarráðherra og ríkisstjórnin auðu (Forseti hringir.) þegar kemur að jafnari skiptingu og sanngjarnari skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga. Það er svo sem önnur umræða sem við þurfum að taka seinna.