151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrra og fram eftir ári kölluðu Samtök atvinnulífsins eftir því að kjarasamningar yrðu endurskoðaðir og verkalýðsfélögin myndu slá af kröfum sínum um að samningar héldu. En sem betur fer héldu samningarnir, hún skipti miklu máli þessi hækkun lægstu launa. En mantran var svolítið sú að nú væri bara svo lítil framleiðni í hagkerfinu, og það var reyndar byrjað áður en heimsfaraldur skall á og varð áberandi, að ekki væri hægt að standa undir þessum háu lágmarkstekjutryggingum eins og lífskjarasamningarnir gera ráð fyrir.

Sami tónn er sleginn í texta og greinargerð og kynningum með þessari fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ég vil bara spyrja hv. þingmann hvort hún geti tekið undir að það sé kannski einn helsti vandinn, sem kallaður er bæði í kynningum og í textanum kerfislægur vandi, að lágmarkslaun á Íslandi séu of há og ef stöðugleiki eigi að haldast sé mikilvægt að láglaunafólk átti sig á því þegar það situr við kjarasamningsborðið. Ef þau gera það ekki þá geti þau búist við að fá ekki vinnu til lengri tíma. Hvað vill hv. þingmaður segja um þennan tón sem sleginn er af ríkisstjórn sem hv. þingmaður styður?