151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:08]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Mig langar í rauninni bara að taka stóru myndina. Það er ekkert eitt atriði sem hefur meiri áhrif á fjármálaáætlun ríkisins inn í framtíðina en Covid-faraldurinn. Mig langar að spyrja forsætisráðherra hvort við gerð þessarar fjármálaáætlunar hafi verið horft á mismunandi sviðsmyndir í þróun þessa faraldurs. Nú er nýkomið til landsins breska afbrigðið sem er byrjað að smita fólk. Talið er að það smiti börn frekar og sé almennt meira smitandi, mögulega meira skaðlegt. Um leið og smitstuðullinn fer upp fer hjarðónæmisprósentan líka upp. Hugmyndir okkar um nógu mikið magn af bóluefni, bóluefni sem við höfum reiknað með, breytast. Það dugar þá skemur.

Jafnframt er alveg skýrt komið fram, alla vega virðist svo vera í fyrstu rannsóknum varðandi þessi nýju afbrigði, það suðurafríska og það brasilíska, sem er byrjað að dreifa sér, að bóluefni virki minna á þau. Nú virkaði AstraZeneca-bóluefnið til að byrja með einhvers staðar í kringum 74%, minnir mig, en er komið alveg niður í 40% gagnvart suðurafríska afbrigðinu þó að það minnki vissulega líkurnar verulega á því að maður veikist alvarlega eða deyi. Samt sem áður er virknin á miklu víðtækara sviði en hjá Pfizer og Moderna. Að hvaða leyti hefur verið tekið inn í dæmið aðgangur að bóluefnunum og hver virkni þeirra er gagnvart þessum nýju breytum um meiri smittíðni og alvarleika veirunnar og hvernig hún þróast? Við erum að hugsa um hvernig við getum reynt að bjarga ferðasumrinu, en mér sýnist það vera farið út um gluggann miðað við nýju stöðuna. Að hvaða leyti skila þessar sviðsmyndir sér inn í fjármálaáætlun? Þetta eru lykilbreytur hvað það varðar.