151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í síðustu fjármálaáætlun vorum við með markmið um 40% og þar sáum við í gögnum málsins að helmingur af því sem þurfti til að ná því markmiði var óútfært og í raun ófjármagnað miðað við hvernig ég skildi það alla vega. Við sáum í sérstöku fjárfestingarátaki sem viðbragð við Covid að þar var lagður til aukamilljarður og helmingurinn af honum fór í landgræðslu og skógrækt sem telur að vísu líka en ekki beint í þessi 55%. Maður hefði haldið að það teldi upp í þetta óútfærða, upp í 40%. En hvar er þá það sem vantar upp á fyrir markmið um 55% samdrátt? Það er það sem ég átta mig ekki alveg á og þeim mun síður í þessari fjármálaáætlun þar sem er bara ákveðið að gera engar efnislegar breytingar. Alltaf þegar fjármálaáætlun er lögð fram og verið er að skoða mælikvarða vegna stefnu stjórnvalda þá er verið að uppfæra stöðuna. Hver er staðan 2020? Í fjármálaáætlun sem við samþykktum fyrir jól vorum við með stöðuna 2019. Núna í fjármálaáætlun ættum við að vera með yfirlit yfir það hver staðan er 2020 til þess að geta borið saman og séð hvernig þróunin er, en við fáum ekkert svoleiðis af því að ekki er verið að uppfæra efnislega stefnu stjórnvalda frá því í síðustu fjármálaáætlun. Þá vitum við ekkert hvort við þurfum að bregðast við með minna fjármagni, meira fjármagni, sama fjármagni og vitum ekki hver áhrif þess eru að hafa sett fjármagn í þessa málaflokka. Nú býst ég við, miðað við hversu mikið var óútfært áður, að það þurfi meira fjármagn, en það er bara ágiskun. Ég hef ekkert rosalega gaman af því að giska þegar kemur að almannafé.