151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:03]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það eru hrópandi verkefni víða eins og ráðherrann þekkir giska vel. Það eru engin jarðgöng á framkvæmdastigi núna. Við hefðum auðvitað þurft að vera með og þurfum að vera með a.m.k. tvö verkefni fullhönnuð og kláruð hverju sinni til þess að geta gripið tækifærið.

Virðulegur forseti. Sveitarfélög um allt land búa við kröpp kjör mörg hver sem treysta mikið á ferðaþjónustuna. Þar er mjög takmarkað ef eitthvert svigrúm fyrir hendi til fjárfestinga. Þetta mun bitna á þessum svæðum núna strax og til lengri tíma. Ríkisstjórnin hefur vanrækt sveitarfélögin sem gerir þeim mun erfiðara fyrir að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar sem eru nauðsynlegar. Síðasta haust þegar fjármálaáætlun var lögð fram lá fyrir að það stefndi í samdrátt í fjárfestingu hjá sveitarfélögunum. Við þær aðstæður á hið opinbera, ríkið, að stíga fram. Hver eru áformin? Hefur ríkisstjórnin á prjónunum einhverjar fyrirgreiðslur í þessum efnum til sveitarfélaga, t.d. hagkvæma lánafyrirgreiðslu?

Síðan sjáum við að boðaðar framkvæmdir í vegagerð eru að minnka um 7 milljarða á milli ára. Hæstv. ráðherra hefur útskýrt það með sínum hætti. Á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins 2021 kom fram að á útboðsþingi í fyrra voru boðaðar framkvæmdir upp á tæpa 132 milljarða en raunin varð framkvæmdir upp á 29% lægri upphæð. Hvað veldur?

Ég vil spyrja ráðherra líka hvort ekki sé mikilvægt að leita allra ráða til að flýta innviðaframkvæmdum og spyr einnig ráðherra hvort það hafi verið skoðað nægilega vel.

Herra forseti. Rétt í lokin. Í fjármálaáætlun er tæpt á orkuskiptum í samgöngum og fjallað um að tryggja þurfi ríkissjóði tekjur svo áfram megi standa undir uppbyggingu og viðhaldi samgöngumannvirkja. Það þurfi að endurskoða í heild þennan hluta skattkerfisins og að lausnin muni að öllum líkindum fela í sér einhvers konar notkunarskatt á bifreiðar.

Herra forseti. Hvaða leiðir er þarna verið að fjalla um og hvaða sýn hefur hæstv. ráðherra í þessu efni?