151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar og atvinnuleysi.

[15:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Komið hefur fram í umræðunni og í óundirbúnum fyrirspurnum að beinn stuðningur yfirvalda á Íslandi vegna efnahagsáhrifa Covid hafi verið einna minnstur af samanburðarlöndum. Eins og kemur fram í frétt RÚV eru Tyrkland, Albanía, Hvíta-Rússland, Svartfjallaland, Bosnía og Hersegóvína og Moldóva einnig á þeim lista. Fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra að ýmis atriði hefðu ekki verið talin til í þessu áliti að mati ríkisstjórnarinnar en atriðin sem voru talin upp í fyrra andsvari bæta ekkert rosalega miklu við heildarupphæðina. Við verðum að taka tillit til þess að á Íslandi var ferðaþjónustan umfangsmest í efnahagslífinu fyrir Covid. Algjört hrun í ferðaþjónustunni hefur því augljóslega mikil áhrif á Íslandi miðað við önnur lönd. Stærsta hrun í 100 ár, hefur verið sagt, en samt eru sértæk viðbrögð ekki meiri en raun ber vitni. Er það af því að ekki þurfti meiri viðbrögð? Voru viðbrögðin að skila þeim árangri að ekki þurfti meira? Nei, því að miðað við atvinnuleysistölurnar sem við sjáum þurfti og þarf enn þá tvímælalaust meira.

Í upphafi árs var 10,7% atvinnuleysi. Í lok janúar 11,6%, það hækkaði. Í lok febrúar 11,4%, það lækkaði pínulítið. Í lok mars 11%, það lækkaði enn þá pínulítið en var samt meira en í upphafi árs. Að auki er síðan u.þ.b. 1% í minnkuðu starfshlutfalli. Alls fækkaði atvinnulausum um 333 en óljóst er hvort það hafi verið vegna þess að fólk hafi bara verið að klára réttindin eða fengið vinnu eða vegna einhvers annars. Þetta er allt þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda. Ég set ákveðið samasemmerki á milli fjárstuðnings yfirvalda, sem er eins lítill og raun ber vitni, og þessa mikla atvinnuleysis. Ég spyr einfaldlega: Af hverju hefur ekki verið farið í aðgerðir þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi aukist og aukist það sem af er í þessu ástandi (Forseti hringir.) og sé enn á þeim stað sem við sjáum í dag?