151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[18:29]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ef það eru litlir skammtar tel ég að það eigi að vera refsilítið eða refsilaust, já. En ég tel að stjórnvöld þurfi að nálgast þetta verkefni með miklu heildstæðari hætti en gert hér. Ég er ekki að tala um að gera þetta með því kæruleysislega yfirbragði sem þetta frumvarp ber vott um, bæði varðandi samráð og undirbúning og samþætta vinnu allra aðila sem að því koma, eins og heilbrigðisstarfsmanna, löggæslu, meðferðaraðila o.s.frv. Ég gæti séð fyrir mér að þegar fíklar lenda í höndunum á lögreglu ætti henni auðvitað að vera heimilt að leggja hald á efnin, en síðan gæti fíkillinn eða neytandinn átt val um það t.d. hvort hann færi refsileiðina, þ.e. borgaði einhverja sekt, eða hvort hann myndi þiggja aðstoð um meðferð eða ráðgjöf eða eitthvað slíkt. Ég gæti séð fyrir mér svoleiðis kerfi. En í þessu frumvarpi, sem er eitt og eitt sér bara afglæpavæðing í heilu lagi, er ekki gert ráð fyrir því að svo stöddu a.m.k. Það er ekki neitt frumvarp sem fylgir þessu, alla vega hef ég ekki séð það. En að við tækjum svolítið heildstætt á þessu, samfélagið. Þetta er vandi. Við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður. Þetta er vandi. Ég ætlaði að lesa upp tölur frá Portúgal og Hollandi sem sýna að þegar afglæpavæðing á sér stað þá eykst neyslan. (Forseti hringir.) Hún eykst hjá unga fólkinu, bæði í Portúgal og Hollandi. (Forseti hringir.) Ég ætlaði að lesa þetta upp hérna en hafði ekki tíma til þess, geri það kannski síðar.