151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[19:00]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hefur átt sér stað um frumvarp heilbrigðisráðherra við 1. umr. Það hefur verið farið yfir býsna margt og ég ætla ekki að endurtaka það sem sagt hefur verið um útfærslur neysluskammta og önnur slík atriði sem má reikna með að verði flókin í útfærslu. En það eru fjögur áhersluatriði sem mig langaði að koma inn á. Það hefur mikið verið rætt hér í dag um að ekki eigi að refsa sjúklingum. Það má til sanns vegar færa að það er alveg örugglega til skynsamlegri leið til að takast á við sjúklinga en að refsa þeim með fangelsisvist svo að dæmi sé tekið. En staðreyndin er sú að mér er það til efs að það séu margir að afplána fangelsisvist fyrir að hafa undir höndum það magn fíkniefna sem hér um ræðir, verði það einhvern tímann skilgreint þannig að með forsvaranlegum hætti sé. Ef það eru sjúklingarnir, þeir sem eru sjúkir vegna eiturlyfja, fíkniefna, sem við viljum koma til móts við og bæta umhverfið gagnvart tel ég miklu skynsamlegra að útfæra einhvers lags heimild til handa saksóknara til að falla frá saksókn ef sjúkraskrá eða sakaskrá bendir til þess að um sjúkan einstakling sé að ræða. Það eru miklu fleiri þarna úti sem þetta breytta regluverk mun hafa áhrif á en þeir sem við tölum um sem sjúklinga í þessu samhengi. Það eru þeir sem hafa það að lífsviðurværi að selja eiturlyf, fíkniefni; slíkir aðilar verða auðvitað í mun betri stöðu og þeim mun eflaust fjölga þegar deila þarf svokölluðum neysluskömmtum niður á fleiri vasa. Ég er ekki viss um að vilji þingsins standi til þess að létta slíkum aðilum lífsbaráttuna. Ef raunverulegur vilji stendur til þess að bæta líf þeirra sem eru sjúklingar vegna þessa þá eigum við að útfæra þá lausn með öðrum hætti en hér er gert. Ein leið, sem ég vil þá bara beina til hæstv. velferðarnefndar að ræða, væri einhvers lags útfærsla á því að saksóknari hefði miklu rýmri heimildir en nú er til að falla frá saksókn með þeim rökum að sjúkrasaga eða sakaskrá bendi til þess að um sjúkan einstakling sé að ræða en ekki láta það ganga þvert yfir línuna. Ég held að það væri til bóta að nálgast málið með þeim hætti.

Það er auðvitað líka þannig að það felst ákveðinn fælingarmáttur í því einu og sér að efni sé ólöglegt. Við þekkjum það öll. Það breytir því ekki að þrátt fyrir að eitthvað sé ólöglegt þá verður það áfram þannig að eiturlyfja og fíkniefna verður neytt, rétt eins og að það verða alltaf einstaklingar sem keyra bílinn sinn hraðar en hámarkshraði segir til um. En það hefur engu að síður ákveðinn fælingarmátt að umrædd efni séu ólögleg rétt eins og það hefur fælingarmátt að hámarkshraði sé skilgreindur alls staðar á vegakerfi Íslands. Flestir ökumenn horfa sem betur fer til þess hver hámarkshraðinn er í stað þess að stíga bensínið í botn. Ég held að bannið auðveldi mörgum, hvort sem það er í partíum úti í bæ eða annars staðar, að prófa ekki, byrja ekki að fikta. Ég held að það sé stuðningur sem margir, sérstaklega ungt fólk, hafi gott af.

Ég held sömuleiðis, með þær tillögur sem hér liggja fyrir, að það vanti mikið upp á að horft sé nægilega heildstætt á málið. Hér er fyrst og fremst verið að horfa á refsingaþáttinn, að lögleiða svokallaða neysluskammta, sem þó liggur ekki fyrir hversu umfangsmiklir verða og hljóta að vera mismunandi eftir einstaklingum ef horft er á hvernig þetta gerist í raunveruleikanum. Það hefur verið farið yfir tölur og upplýsingar frá Portúgal og Noregi, svo dæmi sé tekið, og mér finnst það allt bera að sama brunni, þ.e. að málið sé allt of lítt ígrundað. Ég vona að velferðarnefnd taki þann þátt málsins til sérstaklega ígrundaðrar skoðunar.

Það sem ég vil sérstaklega nefna, varðandi það sjónarmið mitt að málið sé ekki nógu heildstætt skoðað, er að ef raunverulegur þingvilji er til þess að fara þessa leið þá finnst mér það ekki boðlegt nema á sama tíma verði farið í hinar ýmsu mótvægisaðgerðir, hvað varðar aðgang þeirra sem fikta við eða ánetjast slíkum efnum að ráðgjöf og sjúkraþjónustu eftir atvikum. Það er starfsemi sem við þekkjum býsna vel og nefna má sem dæmi hina góðu starfsemi sem rekin er undir hatti SÁÁ. Það eru slík atriði sem ég held að verði að innleiða á sama tíma ef þessi leið verður farin, enda hef ég skilið það á þann veg í umræðunni í dag að þannig sé það í löndum sem hafa aukið frelsi, ef frelsi skyldi kalla, í þessu samhengi, hafa lögleitt þessa neysluskammta. Ég held að velferðarnefnd verði að skoða hvort slíkt mál þurfi ekki að hanga með máli eins og þessu ef það kemur á daginn að þingviljinn liggur með þessum hætti, enda má þetta ekki verða einhvers lags bein braut sem hefur kannski þann eina raunverulega tilgang á endanum að auðvelda kannabisneyslu sem margir hafa fært rök fyrir að ástæða sé til að hafa áhyggjur af.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, það eru aðrar leiðir til að verja þá sem við getum talið sjúka vegna neyslu þessara efna. Það eru leiðir sem snúa m.a. að því að auka svigrúm til að falla frá saksókn. Smáfikt og bernskubrek, ef við köllum svo, hangir á sakaskrá núna. Ein leiðin væri að gera það auðveldara að hreinsa sakaskrána. Þó að ég sé ekki tilbúinn með útfærslu á því hér í pontu þá er alveg örugglega hægt að útfæra það með þeim hætti að hvetjandi verði, fyrir það unga fólk sem hefur komið sér í þá stöðu, að víkja af þeirri braut. Ég ítreka að þetta má ekki verða að teppalagðri hraðbraut að aukinni neyslu kannabisefna í samfélaginu.

Þetta er það sem ég vildi leggja til málanna hér við 1. umr. Ég vona að velferðarnefnd taki því vel að fjalla sérstaklega um þær ábendingar mínar sem snúa að því að fara aðrar leiðir til að verja þá sjúku í þessu samhengi. Það verður áhugavert að sjá með hvaða hætti málið kemur aftur inn til þingsins.