151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ímyndum okkur: Ég er barn og ég bý úti á landi. Ég er með málþroskaröskun og ég þarf að komast í talþjálfun. Ég fæ stundum talþjálfunartíma í gegnum tölvu en stundum þarf ég að bíða og vera í pásu því að það eru svo fáir talmeinafræðingar og mörg börn að bíða. Skil ekkert í því af því að ég veit t.d. að frænka mín er talmeinafræðingur og getur hjálpað mér en hún má ekki taka mig í þjálfun. Hún er samt búin með háskólann og er orðin löggiltur talmeinafræðingur en af því að hún er ekki búin að vinna í tvö ár þá má hún ekki hjálpa mér. Ég skil ekkert í þessu og mamma mín ekki heldur.

Herra forseti. Það er ekki furða að barnið skilji þetta ekki. Ég skil þetta heldur ekki. Í nóvember 2017 setti SÍ ákvæði eða skilyrði um tveggja ára starfsreynslu fullgilds talmeinafræðings til að komast á samning hjá SÍ. Ástæðan fyrir þessari tveggja ára reglu er að auka gæðakröfur til þjónustunnar. Þessi tveggja ára regla skapar langa biðlista og er meðalbiðtími eftir að komast að hjá talmeinafræðingi 17–36 mánuðir, samkvæmt rannsókn sem nýútskrifaður talmeinafræðingur gerði síðastliðið vor.

Herra forseti. Hvernig væri nú að kippa þessu í liðinn, taka þetta ákvæði um tveggja ára starfsreynslu út svo nýútskrifaðir talmeinafræðingar geti starfað sjálfstætt á stofu? Það hefur sýnt sig og sannað að þetta tveggja ára ákvæði kemur niður á þjónustu við þá sem þurfa nauðsynlega á henni að halda núna en ekki eftir 17–36 mánuði. Ef viljinn er fyrir hendi er hægt að breyta því. En viljinn virðist ekki alveg vera fyrir hendi og biðlistaráðherrann virðist ekki sjá hvernig hún geti leyst þetta mál.