151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[17:00]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. En mér þykir miður að hann skuli nota orðið orðaskak þegar verið er að spyrja út í málefni sem tengjast þessu frumvarpi. Auðvitað átta menn sig á því, frú forseti, að hér er að stærstum hluta verið að vinna að framkvæmd á samkomulagi sem aðilar vinnumarkaðarins hafa gert sín á milli um lífeyrismálin. En það eru bara fjölmargir þættir í þessu frumvarpi sem kalla á skoðun. Ég tek eftir því að hæstv. ráðherra treystir sér ekki til að útskýra þá breytingu sem um er að ræða varðandi útfærslu á verðtryggingunni, sem hefur staðið óhögguð a.m.k. síðan 1997, í 2. mgr. 14. gr. Hann getur ekki útskýrt þetta. Þetta er atriði sem skiptir fólk máli. Og við sjáum að verðbólgugusa eins og við erum nýlega búin að upplifa, myndi vera óbætt gagnvart eldra fólki, lífeyrisþegum, a.m.k. í ár. Þetta er óþolandi óvissa fyrir þetta fólk.