151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

uppbygging og rekstur flugvalla og þjónusta við flugumferð.

702. mál
[20:09]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til nýrra laga um uppbyggingu og rekstur flugvalla og þjónustu við flugumferð. Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði heildstæð lög um rekstur og uppbyggingu flugvalla auk rekstrarstjórnunar flugumferðar og flugleiðsöguþjónustu sem ríkinu ber að sjá til þess að sé til staðar. Frumvarpið mun því fela í sér töluverða einföldun regluverks og jafnframt draga fram verkefni stjórnvalda á þessu sviði með mun skýrari hætti en áður.

Verði frumvarpið að lögum falla úr gildi þrenn lög sem nú gilda á þessu sviði: Í fyrsta lagi lög um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands, nr. 102/2006. Í öðru lagi lög um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar, nr. 76/2008. Í þriðja lagi lög um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar, nr. 153/2009. Þessi þrenn lög hafa til samans að geyma ýmis ákvæði um stofnun umræddra félaga, hlutverk þeirra og innra starf og liggja ákvæði þeirra í dag til grundvallar þessari starfsemi ríkisins.

Virðulegi forseti. Ég mun nú gera grein fyrir meginefni frumvarpsins. Skipta má efni þess í fjóra hluta:

Í fyrsta lagi eru skilgreind þau verkefni við rekstur og uppbyggingu flugvalla og rekstrarstjórnun flugumferðar og flugleiðsöguþjónustu sem stjórnvöldum ber að sjá til þess að sinnt sé af hálfu ríkisins. Þessi verkefni sem skilgreind eru í 3. gr. frumvarpsins eru í stuttu máli rekstur og uppbygging rekstrarstjórnunar flugumferðar og flugleiðsöguþjónustu, rekstur og uppbygging Keflavíkurflugvallar og rekstur og uppbygging annarra flugvalla í eigu ríkisins.

Meginmarkmið frumvarpsins eru sett fram í 2. gr. Þau eru að flugvellir landsins og þjónusta við flugumferð þjóni þörfum samfélagsins á umhverfislega sjálfbæran hátt með skilvirkni, hagkvæmni og öryggi í fyrirrúmi í samræmi við stefnu stjórnvalda í samgöngumálum á hverjum tíma. Þá eru skilgreind í fimm stafliðum sérstök markmið sem stefnt skal að við útfærslu og framkvæmd framangreindra verkefna ríkisins á þessu sviði. Þau eru:

a. Innviðir og starfsemi á þessu sviði tryggi gæði rekstrarstjórnunar flugumferðar og flugleiðsöguþjónustu og hámarki flugöryggi. Þá sé kröfum loftferðalaga og annarra laga og reglna á þessu málefnasviði ávallt fullnægt.

b. Veitt sé heildstæð flugvallarþjónusta hér á landi fyrir millilandaflug, þar með talin varaflugvallarþjónusta, sem stuðlar að því að viðhalda og efla samkeppnishæfni landsins í millilanda- og tengiflugi.

c. Flugvallarkerfið sé virkur hluti öruggra og hagkvæmra samgangna innan lands og tengist öðrum almenningssamgöngum.

d. Fylgt sé stefnumörkun stjórnvalda í samgöngumálum eins og hún birtist í flugstefnu og samgönguáætlun á hverjum tíma.

e. Fylgt sé stefnumörkun stjórnvalda eins og hún birtist í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

Þessi skýra framsetning á verkefnum ríkisins á þessu sviði og þeim markmiðum sem stefnt skal að við framkvæmd þeirra er mikilvægt nýmæli í þessu frumvarpi.

Í öðru lagi er kveðið á um að Isavia skuli sinna umræddum verkefnum fyrir hönd ríkisins á grundvelli þjónustusamninga með svipuðum hætti og verið hefur. Opnað er þó einnig á að ráðherra geti samið við annan aðila um framkvæmd einstakra verkefna ef nauðsyn krefur eða ef talið er að með því megi ná markmiðum frumvarpsins með hagkvæmari hætti. Í frumvarpinu er ekki að finna ákvæði um skipulag og innra starf Isavia ohf. Litið er svo á að slík ákvæði eigi ekki heima í lögum um verkefni ríkisins á þessu sviði. Félagið starfar á grundvelli þess ramma sem markaður er í lögum um opinber fjármál og hlutafélagalögum sem og í eigendastefnu og samþykktum félagsins. Sé þörf á sérstökum lagaákvæðum um starfsemi félagsins ættu þau heima í sérlögum þar um. Eftir sem áður er hins vegar gert ráð fyrir því að Isavia ohf. sinni að meginstefnu til verkefnum ríkisins á þessu sviði á grundvelli þjónustusamninga við ráðuneytið, eins og áður segir. Ekki er því gert ráð fyrir að frumvarp þetta hafi í för með sér breytingar á rekstri Isavia ohf. eða rekstrargrundvelli félagsins.

Í þriðja lagi eru tekin upp í frumvarpinu sambærileg ákvæði og í gildandi lögum sem snúa sérstaklega að starfsemi rekstraraðila Keflavíkurflugvallar, bæði gagnvart öryggissvæðum á vellinum sem og þeim hefðbundnu verkefnum sveitarfélaga sem rekstraraðilinn fer með innan flugvallarsvæðisins.

Í fjórða lagi eru felld úr gildi eldri lög á þessu sviði, eins og áður hefur verið rakið. Þá skal að lokum tekið fram að frumvarpið fjallar ekki um tæknilegar kröfur sem gerðar eru til starfrækslu flugvalla eða flugleiðsöguþjónustu. Um það fer eftir lögum um loftferðir.

Að gerð frumvarpsins stóð ritnefnd sem skipuð var fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins, Samgöngustofu og Isavia. Ritstjórn frumvarpsins var í höndum fulltrúa samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Talið er að skýrt og uppfært lagaumhverfi á þessu sviði muni styðja við hagkvæman rekstur flugvalla og flugleiðsöguþjónustu og stuðla að framgangi stefnu stjórnvalda á þessu sviði.

Ég hef nú farið yfir meginefni frumvarpsins. Verði það að lögum er ekki gert ráð fyrir því að það hafi teljandi áhrif á afkomu ríkissjóð.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.