151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði ekki að taka þátt í þessari umræðu en síðasti ræðumaður ýtti mér upp í púltið. Ég sá allt í einu nýjan vinkil á þessu máli og hann er sá að þetta opinberar hversu skrýtinn kokteill sú ríkisstjórn er sem nú situr. Það er eiginlega dálítið furðulegt þegar hv. þingmaður Vinstri grænna kemur í ræðustól og talar fyrir því að menn taki áhættu í lífinu um leið og hún tekur þátt í að leggja niður ríkisstofnun sem verið hefur tiltölulega óumdeild og gert gríðarlega mikið gagn og breytir henni í einkahlutafélag. Ég verð að segja, frú forseti, að öðruvísi mér áður brá. Kannski er þetta orðin einhver skiptaregla milli ríkisstjórnarflokkanna, að Vinstri græn taka þátt í því að leggja niður vel þokkaða ríkisstofnun og breyta í einkahlutafélag, en Sjálfstæðisflokkurinn horfir á heilbrigðiskerfið sem meira og meira er sveiflað til marxískrar hugmyndafræði með hverjum deginum. Upphaflega var lagt upp með að þessi ríkisstjórn væri með breiða skírskotun en í ljós hefur komið æ ofan í æ, m.a. í þessu máli, að menn eru sífellt að finna einhvern samnefnara sem þau ólíku öfl sem standa að ríkisstjórninni geta komið sér saman um, meðreiðarsveinninn hreyfir hvorki legg né lið og lætur hafa sig út í allt fyrir þrjá ráðherrastóla. Þetta er í stuttu máli efnisinnihald ríkisstjórnarinnar sem nú situr.

Ég er búinn að halda ræður í þessu máli í öllum þremur umræðunum. Ég held að ég hafi verið einn af fáum sem tóku til máls í 1. umr. Það blasti við frá byrjun að í fyrsta lagi hafði ekki verið haft samráð við einn eða neinn þegar þetta frumvarp var lagt fram. Það var alveg greinilegt að farið var í blóra við öll góð ráð sem starfsfólk, sem verið hafði þarna í áratugi, hafði fram að færa. Það var satt að segja farið þannig að gagnvart þessu starfsfólki að það fékk eiginlega blauta tusku í andlitið frá ríkisstjórninni. Það er næsta víst, og það veit ég vegna þess að ég hef heyrt í sumu af þessu fólki, að við þetta hrökk fyrir borð mikill mannauður, mikil þekking og mikil reynsla.

Eins og ég sagði við báðar umræðurnar held ég því fram að þessi ákvörðun hljóti að hafa verið tekin í fundarhléi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Menn hafa verið með einhvern lista af stofnunum og svartan tússpenna og strikað út af listanum og fært inn á servéttu með fálkanum í horninu og sagt: Þessar stofnanir ætlum við að leggja niður og sýna landsmönnum fram á það hversu frjálslyndur og framsækinn þessi flokkur er.

Einnig er talað um að þessari gerð eigi að fylgja lægri kostnaður. Ég held ég hafi spurt að því í báðum umræðum, og ég held að félagar mínir hafi spurst fyrir um það í hv. atvinnuveganefnd, hversu hátt hlutafé einkahlutafélagsins, sem verður alfarið í eigu ríkisins, eigi að vera. Ekkert svar hefur borist, frú forseti. Ég lagði það upp á einhverjum tímapunkti að hugsanlega væru menn að fara út í að stofna einkahlutafélag með lágmarksupphæð, 500.000 kall, eins og menn gera gjarnan ef þeir ætla að fara að flytja inn inniskó eða eitthvað svoleiðis. En ég hef grun um að þær milljónir sem á að „spara“ með þessari gerð hverfi þegar kostnaðurinn við stofnun einkahlutafélagsins hefur verið mældur og veginn og kostnaðurinn af því að færa til verkefni sem sinnt hefur verið vel, inn í stofnun sem ekki býr að því stofnanaminni og þeirri þekkingu sem er fyrir hendi í gömlu Nýsköpunarmiðstöðinni. Þarna er ég að tala um Rannsóknastofu byggingariðnaðarins sem verið hefur að störfum í áratugi.

Nú á sem sagt að rífa þessa reynslu upp með rótum og kasta henni hingað og þangað; einn biti fer í einkahlutafélagið, annar inn í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun o.s.frv. Þetta eru engin vinnubrögð, frú forseti, og lýsir óvenju einbeittum brotavilja að ganga svona fram þrátt fyrir öll varnaðarorð. Hv. þingmaður Vinstri grænna kallaði það úrtöluraddir hér áðan, af því að við erum ekki nógu djörf og ekki nógu til í að stofna einkahlutafélag eins og VG. Ég hef kannski tillögu handa þessum ágæta þingmanni VG. Ég er til í að stofna með henni einkahlutafélag sem myndi stuðla að því að stytta biðlista í heilbrigðiskerfinu, ég er alveg til í það, ég skal bara gera það hér og nú til þess að það geti hafið störf á morgun. En ég hugsa að Sjálfstæðisflokkurinn myndi nú kæfa það í fæðingu enda er hann búinn að standa að því nú í fjögur ár að færa heilbrigðiskerfið í marxíska átt, eins og ég sagði áðan. En aðalmálið er það að þrátt fyrir öll varnaðarorðin í upphafi, þrátt fyrir það sem starfsmennirnir reyndu að koma á framfæri áður en raddir þeirra voru kæfðar, þrátt fyrir varnaðarorð þeirra sem komu fyrir nefndina og þrátt fyrir umsagnirnar, er ekki hlustað, ekkert með það gert.

Frú forseti. Mér rennur alltaf til rifja þegar ég veit það — og það hefur komið fyrir nokkrum sinnum á mínum stutta ferli hér í þinginu — þegar ég finn það, þegar ég heyri það alls staðar í umsögnum og hjá gestum sem hafa uppi varnaðarorð, að þingið er að gera mistök með því að afgreiða ákveðin mál og því er haldið til streitu. Það er ekki hægt að taka þátt í því, frú forseti, þó að við teljumst þá úrtölumenn sem ekki viljum stofna einkahlutafélag með VG. Það verður þá bara svo að vera. Við erum þá bara ekki nógu framsækin, sem viljum sjá til allra átta áður en við tökum þátt í því að mola niður ríkisstofnun sem hefur gott orð á sér, og tvístra mannauðnum, starfsmönnum með áratugareynslu. Við erum einfaldlega ekki til í það. Ég skal gangast undir það hvar sem er að ég sé úrtölumaður ef afstaða mín til þessa vonda máls þýðir það. Ég skal bara gangast við því að ég sé gamaldags af því að ég vil ekki stofna einkahlutafélag með VG. Það skal bara viðurkennt hér og nú. Það verður þá líka að viðurkenna að VG er komið lengra í einkavæðingarherferðinni og vegferðinni en ég, nema náttúrlega í heilbrigðismálunum sem áfram verða marxísk.

Frá öllum hliðum séð er þetta mál vont. Frá öllum hliðum séð er þetta mál þannig vaxið að ekki er hægt að styðja það. Frá öllum hliðum séð blasir við, alls staðar og hvarvetna, hvernig þetta mál er búið til. Það er búið til úr þeim hrærigraut skoðana sem fyrirfinnast í þessari ríkisstjórn. Þetta er ekki eina dæmið þar sem þjóðin mun að lokum súpa seyðið af þeim hræringi sem komið var saman á sínum tíma. Við sjáum þetta út um allt. En því er þannig varið, því miður, að meira að segja heitustu jafnaðarmenn, að ég taldi, koma hingað upp og hæðast að úrtölumönnum fyrir að vilja ekki stofna einkahlutafélag með VG. Það verður bara að hafa það og því miður sé ég ekki fram á að hægt verði að leiðrétta þessi mistök. Það er ekki heldur horft til þess í þessu máli, mistök sem gerð verða með samþykkt þessa máls verða ekki leiðrétt svo auðveldlega.

Menn hafa fullyrt það, og tala af reynslu, af því að við vorum að tala um fjárhagshliðina hér áðan, að einkahlutafélag muni ekki að sama skapi ganga að styrkveitingum frá Evrópusambandinu, svo að dæmi sé nefnt, og ríkisstofnun gerir. Það vill svo til að ég vann við það í dálítinn tíma í fyrra lífi mínu að reyna að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, þ.e. á milli 9 og 5 en ekki í annan tíma. Það var augljóst mál, af samskiptum við sendinefndir sem hingað rötuðu frá Evrópusambandinu, að menn virtust, þótt margt megi slæmt um það samband segja, vera þokkalega vel að sér í bókhaldi. Þeir virtust gera þokkalegar kröfur um að því fé sem Evrópusambandið léti af hendi rakna væri fylgt vel eftir, að það færi á rétta staði o.s.frv. Þar voru uppi ákveðnar kröfur og ákveðnar aðferðir til að færa það og menn fullyrða við mig, og hafa gert allan þann tíma sem þetta mál hefur verið að velkjast hér, að styrkveitingar frá Evrópusambandinu til þessa málaflokks muni ekki verða þær sömu til einkahlutafélags og til ríkisstofnunar af þeim ástæðum sem ég rakti áðan. Þá kemur spurningin: Verða þá framlög til nýsköpunar lægri sem því nemur um fyrirsjáanlega framtíð eða mun ríkisstjórnin sjálf reiða fram fé í þennan málaflokk? Ef svo er spyr ég aftur: Hvað verður þá um sparnaðinn af þessari breytingu, frú forseti? Ég verð því að spyrja enn einu sinni, og í raun og veru ætti ég að heimta að þetta mál fari ekki til atkvæða fyrr en svar við þeirri spurningu liggur fyrir, hversu hátt hlutafé einkahlutafélagsins fyrirhugaða, sem VG ætlar að stofna, eigi að vera. Á það að vera 500.000 kall eða á það kannski að vera jafn margar milljónir og eiga að sparast með því að tvístra stofnuninni eins og hér á að gera með þessum fyrirsjáanlega hörmulegu afleiðingum?

Frú forseti. Einmitt á þessum tíma á tíma þegar við þurfum á nýsköpun að halda eins og aldrei fyrr, hvarvetna — ég skrifaði fimm eða sex langhunda fyrir ári, fyrir tólf mánuðum, um það hvað við ættum að gera til þess að búa okkur undir það sem gerðist að 18 mánuðum liðnum, þ.e. um mitt þetta ár, þegar við sæjum fram úr faraldrinum sem við værum að glíma við, að við værum þá reiðubúin með svör, með áætlanir um hvað við ætluðum að gera til að auka t.d. útflutningstekjur. Það er alveg víst að til þess að vinna okkur út úr því ástandi, sem við erum vonandi að sjá fyrir endann á, verðum við að auka framleiðslu til útflutnings til að auka gjaldeyristekjur til að hjálpa okkur að greiða niður skuldir ríkissjóðs sem myndast hafa á þeim tíma sem faraldurinn hefur staðið, nema Sjálfstæðisflokkurinn ætli að hækka skatta á næstu árum svo um getur. Öðruvísi verður ekki tekist á við þennan vanda. Það er að vísu hægt að draga saman í ríkisrekstri, klárlega einhvers staðar, en nú þurfum við á nýsköpun og stuðningi við nýsköpun að halda sem aldrei fyrr. Svar ríkisstjórnarinnar við því ákalli er að leggja Nýsköpunarmiðstöð niður. Hversu sorglegt getur þetta orðið, frú forseti?