151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[16:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki enn þá náð að átta mig á megintilgangi ríkisstjórnarinnar með þessu máli. Talað er um að tilgangurinn sé að einfalda kerfið en ég sé ekki betur en að tilgangurinn sé að veikja embætti skattrannsóknarstjóra með því að gera það mikilvæga embætti, sem hefur verið kallað eftir árum saman að verði eflt og veitt frekari heimildir, að deild innan ríkisskattstjóra.

Aðeins varðandi það að færa skattrannsóknarstjóra ákæruvald, sem hv. þm. Brynjari Níelssyni finnst algerlega fráleitt, væri það sambærilegt og þekkist t.d. núna hjá lögregluembættum í minni sakamálum. Þau sem eru þeim mun stærri fara til héraðssaksóknara sem tekur ákvörðun um ákæru en fer ekki í djúpa rannsókn á öllum málunum frá byrjun til enda heldur kannar það sem búið er að gera og tekur ákvörðun um ákæru.

Ég skil ekki af hverju ekki er farin sú leið sem kallað hefur verið eftir árum saman innan embættisins, frekar að efla skattrannsóknarstjóra, láta skattrannsóknarstjóra fá heimild til að gefa út ákæru en þegar um er að ræða risavaxin mál séu þau send til héraðssaksóknara til ákvörðunar um ákæru. Mér finnst eins og með þessu sé verið að taka þetta mikilvæga embætti sem við höfum viljað efla árum saman og bara skutla því ofan í skúffu.