151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó ekki eftir ákveðinni spurningu í ræðu hv. þingmanns og ég er fegin að hann fékk bara tvær mínútur. En það er augljóst að við erum algjörlega ósammála í þessum efnum. Það eru til fjölmargar skýrslur, eins og oft hefur verið bent á, einmitt um kosti þess að skattrannsóknarstjóri fái ákæruvald og það er gagnrýnt að það hafi ekki verið skoðað sérstaklega að styrkja embættið frekar og færa því fleiri bjargir. Það sem fólk var að meta var hvort það gæti gengið upp að renna embættinu undir skattrannsóknarstjóra. Það kom fram í máli sérfræðinga að þá þyrfti að sjá til þess að embættið hefði ákveðið sjálfstæði og var efast um það af sérfræðingum sem komu fyrir nefndina að það væri tryggt með þessu frumvarpi. Skattrannsóknarstjóri segir í umsögn sinni að ef hann ætti að velja á milli þess að skattrannsóknir færu alfarið til héraðssaksóknara eða undir Skattinn væri betra að hafa sérþekkingu hjá Skattinum. En því miður er með framsetningunni í frumvarpinu séð til þess að splitta þarf sérfræðiþekkingunni upp. Eins og hv. þm. Brynjar Níelsson fór ágætlega yfir hér áðan þá telur hann augljóst að sérfræðiþekkingin þurfi að vera á tveimur stöðum þótt hann hafi lesið það upp úr nefndarálitinu að koma ætti í veg fyrir það. (Forseti hringir.) Það er eins og með annað í þessu frumvarpi, þarna er mikill óskýrleiki.