151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[16:43]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef gert mér grein fyrir því frá því að við hófumst handa við þetta frumvarp að hv. þm. Oddný Harðardóttir er í grunninn á móti því sem hér er verið að gera og það er auðvitað bara réttur hvers og eins. Það er hins vegar kokhreysti mikil að vitna til þess að flestir sérfræðingar eða sérfræðingar leggist gegn þessu vegna þess að það er ekki þannig. Ég ætla að benda hv. þingmanni á umsögn sem ríkisskattstjóri sendi nefndinni, þar sem hann rekur þetta mál og segir m.a. að með þeirri breytingu sem hér er verið að gera, að ferli mála innan skattkerfisins í heild sinni sé á forræði sömu stofnunar, gefist tækifæri til að tryggja eins ríkt samráð og samstarf og kostur er og móta slík viðmið og stýra ferli mála með sem bestum hætti frá upphafi til enda.

Síðan ætla ég að vitna orðrétt í þessa umsögn, með leyfi hæstv. forseta:

„Með vísan til skýrari verkaskiptingar, hvort tveggja við mörk skattkerfisins og refsivörslukerfisins og á milli þeirra sem starfa við skatteftirlit og rannsóknir, aukins samráðs, skýrari viðmiða við málsmeðferð, aukins gagnsæis og tækifæra til nýtingar upplýsinga, þá telur ríkisskattstjóri tillögur frumvarpsins líklegar til þess að styrkja baráttuna gegn skattsvikum, með samstillingu þeirra úrræða og mannauðs sem skattkerfið hefur yfir að ráða.“

Þá spyr ég hv. þingmann: Er hún alveg fullviss um að þau rök, þær skoðanir og þær röksemdir og fullyrðingar sem ríkisskattstjóri hefur hér, og ég vitna í, standist ekki? Það er það sem hv. þingmaður er að halda fram.