151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[19:24]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langaði að spyrja út í vinnu í hæstv. umhverfis- og samgöngunefnd í þessu máli, því að ég er að lesa nefndarálitið, og hvort ekkert hafi verið rætt um svæðisbundna flutningskerfið, sem er raunverulega samnefnari fyrir þann hluta flutningskerfisins sem ekki telst til meginflutningskerfisins. Við erum með meginflutningskerfið, sem er byggðalínuhringurinn, og svo erum við með svæðisbundna kerfið, sem er háspennta kerfið, sem er hluti af flutningskerfinu út frá byggðarlínuhringnum. Eins og komið hefur fram hér í umræðunni er eins og það hafi ekki ratað inn í texta málsins. Hins vegar getur kannski verið ágætt að málið fari aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. til að fá á hreint hvernig stendur á því. Í því sem ég hef lesið í skjölum málsins sé ég hvergi minnst á svæðisbundna kerfið. Það er kerfið sem fór mjög illa í desemberveðrinu 2019, aðventustorminum, og þyrfti raunverulega að taka tillit til þess í kerfinu, það er mjög mikilvægt í samhengi hlutanna.

Varðandi frumvarpið sem slíkt, raflínunefnd og eitt framkvæmdaleyfi fyrir lagningu raflínu, þá segir í 2. mgr. 28. gr. vegalaga að Vegagerðin geti komið með ósk um lagningu vegar með tilliti til umferðaröryggis. Nú þegar er heimild til þess til að fækka slysum og auka umferðaröryggi. Það er því komið í vegalög.

Síðan er það sem ég hef minnst á í kvöld varðandi Keflavíkurflugvöll. Hann er undir nefnd á vegum ríkisins sem sveitarfélög hafa aðkomu að, kannski aðeins tengt því sem við erum að ræða varðandi raflínukerfið eða raflínunefndina. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því að fleiri fordæmi séu í stjórnsýslunni eða í löggjöf frá þinginu sem fara í sömu átt og við ræðum hér?