151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

trúnaður um skýrslu.

[14:47]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Við erum að tala um alveg sérstakt álitaefni þegar kemur að skýrslum Ríkisendurskoðunar og hvernig þær birtast almenningi. Ég held að það væri ráð að skýrslur Ríkisendurskoðunar berist einfaldlega öllum þingmönnum þegar þær liggja fyrir. Ástæðan fyrir því að einhver sérstakur trúnaður gildir um þessa skýrslu er tillitssemi við þingmenn, svo að þeir geti verið búnir að kynna sér efni skýrslunnar áður en hún fer í almenna umræðu í samfélaginu, svo að þeir séu ekki bara að bulla þegar þeir ræða um innihald skýrslunnar sem þeir hafa þá ekki fengið í hendur eins og ráðherra virðist vera að kvarta yfir hér.

Ef við hefðum það verklag, sem er auðvelt að breyta, að Ríkisendurskoðun sendi einfaldlega skýrslur sínar á alla þingmenn, ekki bara þingnefndirnar sem eiga að taka þær fyrir, áður en þær eru gerðar opinberar, segjum einum tveimur sólarhringum fyrr, myndum við ekki lenda í þeim ógöngum að þurfa að bíða í tvær til þrjár vikur eftir að skýrslur komist í opinbera umræðu vegna þess að þær liggja á einhverri biðstofu hjá nefndum sem þurfa að finna fundartíma til að geta tekið þær fyrir.