151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

fiskeldi.

265. mál
[15:54]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga á lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, um vannýttan lífmassa. Þetta nefndarálit kemur frá meiri hluta atvinnuveganefndar. Með frumvarpinu er gerð tilraun til þess að koma til móts við þau sjónarmið að bæta úr klúðri, eins og ég leyfi mér að kalla það, í lokavinnu frumvarpsins sem varð að lögum árið 2019. Þó hafði vinnan við undirbúning frumvarpsins verið unnin í breiðri sátt og samvinnu við nefndarmenn þverpólitískt í atvinnuveganefnd frá árinu 2017. Meira að segja flaug nefndin til Noregs. Þar fékk hún að skoða aðstæður í fiskeldismálum með tilheyrandi fundum og fyrirlestrum. Það var mjög góð og gagnleg ferð þar sem mátti læra margt af áratugareynslu Norðmanna í eldismálum, bæði þegar vel gekk hjá þeim og eins þegar hlutirnir fóru miður, þannig að við getum lært af reynslu þeirra. Var það mjög góð ferð og kom nefndin mjög samstillt aftur til landsins eftir þá ferð og fór að vinna áfram í þessum málum.

Það var klúður, eins og ég leyfi mér að orða það, á síðustu metrum frumvarpsins þarna um vorið 2019 sem varð til þess m.a. að rótgróið fyrirtæki í Ísafjarðardjúpi féll á milli skips og bryggju í úthlutun á leyfum og magni, sem ég er alveg öruggur um að var alls ekki ætlun meiri hlutans þegar þessar breytingar voru gerðar á frumvarpinu, heldur var tíminn svo knappur að ekki var skoðað út í öll horn varðandi hvaða afleiðingar myndu fylgja þessum breytingum og því fór sem fór. Það hefur verið fundað og leitað eftir einhverri leið til að leiðrétta þetta, en einhverra hluta vegna hefur ekki náðst að gera það.

Það frumvarp sem nú er til umræðu er einhvers konar tilraun til að koma í veg fyrir að þetta komi fyrir aftur. En það segir mér samt sem áður ekki að t.d. þessu tiltekna fyrirtæki verði bættur skaðinn, leyfi ég mér að segja, heldur fái það einhvern slatta af tonnum til að ala upp í fiskeldi sínu.

Mig langar að taka hérna nokkra punkta úr umsögn frá tilteknu fyrirtæki. Þetta fyrirtæki heitir Hábrún hf. og er með fiskeldi við Ísafjarðardjúp. Með leyfi forseta segir í umsögn Hábrúnar hf.:

„Hábrún hf., sem hefur staðið fyrir fiskeldi í sjókvíum á Ísafjarðardjúp í hartnær 20 ár, sendir atvinnuveganefnd Alþingis neðangreint erindi, sem skoða má sem umsögn félagsins um ofangreint frumvarp.“

En þó er vitnað til þeirrar vinnu sem var í frumvarpinu sem varð að lögum 2019.

„Erindi þetta lýtur þó í raun ekki nema að takmörkuðu leyti að efni frumvarpsins heldur að ósk um það að atvinnuveganefnd leggi fram við 2. umr. tillögu um breytingu á í b-lið (II) 24. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi.“

Það var akkúrat sú grein sem varð til þess að hlutirnir fóru eins og þeir fóru. Síðan er rakinn hér ferill málsins eins og það kom fyrir þá. Ég gríp aftur niður í umsögn Hábrúnar hf., með leyfi forseta:

„Í meðförum Alþingis voru gerðar ýmsar breytingar á frumvarpi ráðherra að tilhlutan meiri hluta atvinnuveganefndar. Breytingarnar lutu meðal annars að ákvæðum 23. gr. frumvarpsins.

„Rökin að baki breytingartillögunni“, sem lögð var fram 20. maí 2019, „voru þau að með henni væri gætt að jafnræði þeirra aðila sem sannanlega hefðu lagt út í kostnað og vinnu vegna fyrirhugaðs fiskeldis.“

Enn fremur segir:

„Í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar vegna hinnar nýju tillögu er í upphafi tekið fram að nefndin hafi talið nauðsynlegt að fjalla nánar um b-lið (II) 24. gr., þar sem draga þyrfti skýrari línu varðandi það hvaða umsóknir féllu undir gildandi lög og hvaða umsóknir færu samkvæmt b-lið 24. gr. Breytingartillagan sem meiri hlutinn hafði lagt fram við 2. umr. var jafnframt dregin til baka.“

Síðan heldur hérna áfram, hæstv. forseti:

„Eftir því sem næst verður komist fór ekki fram, áður en breytingartillagan var samin, sérstök rannsókn eða athugun af hálfu Alþingis, atvinnuveganefndar, á því hvernig kostnaður og vinna fiskeldisfyrirtækja skiptist milli annars vegar vinnu við gerð tillagna að matsáætlun og hins vegar frummatsskýrslu. Má því segja að ekki hafi verið um vandaða breytingartillögu að ræða. Kann það að stafa af ónógum tíma og pressu um að ljúka máli fyrir þinglok“, eins og ég sagði hér áðan.

„Sú breyting sem atvinnuveganefnd gerði á b-lið (II) 24. gr. við 3. umr. gerði það að verkum að Hábrún hf. missti möguleika á að fá leyfi Matvælastofnunar til að auka eldi sitt í Ísafjarðardjúpi um 11.500 tonn, eins og félagið hafði unnið að í liðlega ár þegar lög nr. 101/2019 voru samþykkt.“

Í ljósi þessa sem ég hef hér rakið óska ég eftir því við forseta að þetta mál verði kallað aftur til atvinnuveganefndar þar sem við getum farið yfir hvað þetta frumvarp gerir t.d. í því sambandi sem ég lýsti hérna og hvort tök séu á og vilji til þess innan nefndarinnar að það sem ég rakti hér, að þetta fyrirtæki, Hábrún hf., féll þarna á milli skips og bryggju, geti fengið bót á því að það fékk nánast ekkert úthlutað.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að þetta mál verði kallað aftur inn til hv. atvinnuveganefndar.