151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[13:45]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við ræddum þetta frumvarp í þinginu í síðustu viku; miðvikudag og fimmtudag. Ég vil fagna frumvarpinu sem hér er komið fram. Það er, eins og komið hefur fram, upprunalega viðbragð við aðventustorminum í desember 2019 og átakshópnum sem lagði til fjölmargar tillögur í öryggisátt í framhaldi af því veðri. Hér er verið að styrkja meðferð raforkumála og hvernig við leggjum línur, eitt framkvæmdaleyfi á línulögn. Ég vil ítreka, fyrst frumvarpið fer aftur inn í hv. umhverfis- og samgöngunefnd á milli umræðna, að þetta sé þá skoðað, að skilningur manna sé, eins og kemur fram í frumvarpinu, að þetta eigi við um flutningskerfi raforku Landsnets þannig að ákvæðið eigi bæði við um byggðalínuhringinn, sem er meginflutningskerfið, og síðan landshlutakerfið, einstakar línur út frá byggðalínunni sem eru á hendi Landsnets, sérstaklega þær sem fóru illa í óveðrinu í desember 2019, þannig að það komi skýrt fram (Forseti hringir.) hver vilji umhverfis- og samgöngunefndar er gagnvart því.