151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[17:22]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, það væri ekki í anda víðsýni að slá nokkurn skapaðan hlut út af borðinu, enda gerði ég það ekki heldur var inntak ræðu minnar einmitt að varpa ljósi á þessi mál í miklu víðara samhengi. Hafi menn áhuga á því að festa íslensku krónuna við einhvern gjaldmiðil þá getur evran auðvitað komið þar vel til greina, evran ein og sér, en einnig sá möguleiki að það væri evran með öðrum gjaldmiðlum í einhverri körfu eða aðrir gjaldmiðlar. Ég nefndi nú bara Noreg sem dæmi því að Noregur byggir auðvitað á svipuðu efnahagslífi og við, þ.e. með náttúruauðlindir, þótt þeir hafi kannski stöðugri náttúru, og þó. Olían er ekki endilega stöðug náttúruauðlind. En þeir byggja líka á sjávarútvegi og þegar aflabrestur verður hjá okkur er ekki ólíklegt að það gefi á bátinn líka í Noregi. Efnahagslíf landa sem byggja á náttúruauðlindum í ríkum mæli sveiflast oft á tíðum í takt og þess vegna nefndi ég þetta. Þetta eru allt þættir sem ég held að áhugamenn um þessi mál ættu að skoða og ég hefði haldið að flutningsmenn þessarar tillögu hefðu líka átt að gera það. En mitt megininnlegg í þessa umræðu var að varpa fram spurningunni: Af hverju að binda sig við einhvern einn gjaldmiðil? Hv. flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu nefndi það hér og mér virðist hv. þingmaður telja það sæta furðu að atvinnulífið geri upp í öðrum gjaldmiðlum. Ég fagna því bara. Ég hef alltaf fagnað því ef fyrirtæki vilja gera það. En ég spyr bara á móti: Hví gera það bara ekki fleiri? Af hverju er ekki ákall um það frá fleirum að fá að gera upp í öðrum gjaldmiðlum en krónunni?