151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

breytingar á fyrirkomulagi skimunar fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

[14:25]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á að þakka hv. málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir þessa umræðu um mjög mikilvægt heilbrigðismál. Eins og alkunna er þá hefur sú ákvörðun heilbrigðisráðherra að senda leghálssýni til Danmerkur til rannsóknar sætt harðri gagnrýni frá konum og kvensjúkdóma- og krabbameinslæknum. Það hefur komið fram að unnt er að greina leghálssýni hér innan lands og hefur komið fram í svari Landspítalans við fyrirspurn heilbrigðisráðuneytisins, og er vísað hér til fréttar á ruv.is þann 17. mars sl.

Ég vil leyfa mér að vísa til ályktunar Læknafélagsins frá 8. febrúar sl. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Tekið er undir álit embættis landlæknis, Félags íslenskra kvensjúkdóma- og fæðingalækna, Félags rannsóknalækna og meiri hluta fagráðs um skimun fyrir leghálskrabbameini að stefnt skuli að því að allir þættir skimunarferilsins verði framkvæmdir hérlendis.“

Þá vil ég leyfa mér, herra forseti, að vitna til opins bréfs til heilbrigðisráðherra frá Önnu Margréti Jónsdóttur, sem er formaður Félags íslenskra rannsóknalækna og sérfræðingur í meinafræði, þar sem hún segir:

„Heilbrigðisráðherra segir það vera öryggismál að fá utanaðkomandi aðila til að greina sýnin. Það er umhugsunarefni að ráðherra heilbrigðismála skuli tala niður íslenskar rannsóknarstofur og varhugaverð þróun að sýni séu send úr landi á þeim forsendum að ekki sé hægt að tryggja gæði og öryggi rannsókna sem gerðar eru innan lands“.

Herra forseti. Ég ætla að lokum að vitna til greinar eftir Önnu Margréti Jónsdóttur, Ísleif Ólafsson og Þorbjörn Jónsson, og þau eru öll læknar og (Forseti hringir.) stjórnarmenn í Félagi íslenskra rannsóknalækna. Greinin ber yfirskriftina Slys í stjórnsýslunni og þar er rakið, og sömuleiðis í viðtölum, að nauðsynlegt er að fram fari úttekt á því hvaða stjórnsýslulega slys hefur átt sér stað hér.