151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

750. mál
[17:46]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir ræðuna. Eðli málsins samkvæmt sem þingmanni Norðvesturkjördæmis var þingmanninum hugfólgið í sinni ræðu hlutverk Norðurlands og Norðvesturkjördæmis þegar kemur að norðurslóðum og málefnum norðurslóða. Það er gott og vel, enda hefur margvíslegt og gott starf átt sér stað í þeim landshluta varðandi norðurslóðir og þá sér í lagi í tengslum við Háskólann á Akureyri og þau setur sem þar eru.

En mig langar svolítið að halda á lofti hér þeirri vinnu sem unnin hefur verið af hálfu þeirra fjölmörgu fræðimanna við Háskóla Íslands sem stunda rannsóknir sem tengjast norðurslóðum. Skemmst er að minnast öflugrar fyrirlestraraðar núna nýverið við Háskóla Íslands um norðurslóðarannsóknir við háskólann sem Rannsóknasetur um norðurslóðir hefur haldið úti. Þar á meðal hafa áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum verið umfangsmikil, í þeirri fyrirlestraröð.

Mig langar að varpa fram þeirri spurningu til hv. þingmannsins hvernig við getum staðið að öflugri samvinnu á milli þessara öflugu háskóla hér á landi, í Háskóla Íslands og þeirra fræðimanna sem hér eru, og svo þeirra fræðimanna sem eru fyrir norðan, vegna þess að málefni norðurslóða eru ekki málefni Norðurlands eða byggðarkjarna á Norðurlandi, heldur okkar allra. Það tengir okkur öll saman og kemur inn á svið samfélagsins, eins og hv. þingmaður rakti svo vel í ræðu sinni, það eru svo fjölbreytt svið samfélagsins sem norðurslóðamálefnin snerta.

En mig langaði að heyra aðeins frá hv. þingmanni hvernig hún sér fyrir sér, ekki bara aukinn þunga á Norðurlandi varðandi málefni norðurslóða, heldur þetta samstarf, sem verður að eiga sér stað líka á milli fræðimanna hér á suðvesturhorninu og Háskóla Íslands og svo fræðimanna og rannsakenda á Norðurlandi.