151. löggjafarþing — 86. fundur,  27. apr. 2021.

fjármögnun á styttingu vinnuvikunnar.

618. mál
[13:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eitt af stóru framfaraskrefum lífskjarasamninganna var stytting vinnuvikunnar. Þetta stóra baráttumál vinnandi fólks mun veita fólki meira frelsi og sveigjanleika í því hvernig það ráðstafar sínum vökustundum sem aldrei eru of margar. Við eigum að sjálfsögðu að halda áfram á þessari vegferð og ég tel að næsta skref ætti að vera að stytta vinnuvikuna niður í 30 stundir á viku. Við eigum að vera ófeimin við að nýta þá virðisaukningu sem hlýst af tækniframförum í sambandi við fjórðu iðnbyltinguna til að halda áfram að stytta vinnutíma fólks og bæta kjör þess almennt. Ávinningurinn af slíkum breytingum yrði gríðarlegur fyrir starfsfólk og samfélagið allt og myndi jafnframt stuðla að betra jafnvægi milli atvinnu og einkalífs og betri lífsgæðum yfir höfuð.

Í þessu sambandi má nefna niðurstöður tilraunaverkefnis hjá ríkinu um styttingu vinnuvikunnar sem voru birtar árið 2019 og voru um margt athyglisverðar. Kemur þar m.a. fram að starfsfólk upplifði meiri lífsgæði sex mánuðum eftir styttinguna. Tími starfshópsins eftir vinnu nýttist betur til að sinna sínum nánustu sem og tómstundum. Styttingin dró úr upplifun af streitu og álagi í daglegu lífi, þá sér í lagi meðal fjölskyldufólks með ung börn.

Ég vil aðeins staldra við þennan punkt. Þar sem kulnun og streita er alvarlegt vandamál í okkar samfélagi held ég því fram að þessi hluti niðurstöðunnar sé sérstaklega verðmætur. Þetta bendir til þess að með styttingu vinnutímans megi hugsanlega fyrirbyggja þessar neikvæðu heilsufarsafleiðingar, a.m.k. að hluta til.

Það hefur oft verið talað um nauðsyn hugarfarsbreytingar á vinnustöðum á vinnumarkaðnum almennt í sambandi við styttingu vinnutímans. Við vinnum til að lifa en við lifum ekki til að vinna. Allar slíkar kerfisbreytingar krefjast einnig samvinnu starfsmanna og atvinnurekanda. Þó hnökrar kunni að koma upp á leiðinni tel ég að þau auknu lífsgæði sem nást með styttingu vinnuvikunnar séu vel þess virði að við höldum áfram á þessari vegferð.

Sum störf eru þess eðlis að stytting vinnuvikunnar mun hvorki kalla á stórkostlegar skipulagsbreytingar á vinnustöðum né koma niður á gæðum þjónustunnar. Þvert á móti geta afköst og gæði þjónustunnar frekar aukist. En þetta á ekki við um allan vinnumarkaðinn. Sumar lykilstarfsstéttir í okkar samfélagi, má t.d. nefna fólk sem starfar við löggæslu eða umönnun, starfa í þannig umhverfi að skipulagsbreytingar einar og sér duga ekki til að stytta vinnuvikuna líkt og kjarasamningar gera ráð fyrir. Stytting vinnuvikunnar verður að ná til alls starfsfólks og það má ekki verða svo að þau auknu lífsgæði sem hljótast af þessum kerfisbreytingum verði stéttskipt.

Ég vil nefna sérstaklega vaktavinnufólk í þessu samhengi. Þær starfsstéttir eru okkur ómissandi en hafa því miður verið vanmetnar of lengi í samfélaginu. Þær starfa mikið til á óhefðbundnum og óreglulegum vinnutíma og við það bætast oft krefjandi starfsaðstæður. Það var því mikið heillaskref í síðustu kjarasamningum að stytta vinnutíma vaktavinnufólks niður í 32 stundir. Við viljum auðvitað að hið opinbera tryggi að hægt sé að innleiða þær breytingar sem samið hefur verið um á sem farsælastan hátt og gangi fram með góðu fordæmi fyrir restina af vinnumarkaðnum í þessum efnum.

Í ljósi þessara atriða vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort nægilegt fjármagn hafi verið tryggt til að hefja styttingu vinnuviku vaktavinnufólks hjá hinu opinbera og hvort ráðherra hafi upplýsingar um hversu mörg stöðugildi þarf að ráða í hjá hinu opinbera í kjölfar þessara skipulagsbreytinga. Og hverjar eru þær?