151. löggjafarþing — 86. fundur,  27. apr. 2021.

fjármögnun á styttingu vinnuvikunnar.

618. mál
[14:08]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Stytting vinnuvikunnar er einstakt tækifæri til að fjölga störfum, opinberum störfum. Þegar ég nefndi þennan möguleika í upphafi faraldursins til að bregðast við hinu sögulega háa atvinnuleysi brást formaður Sjálfstæðisflokksins ókvæða við og kallaði meira að segja þessa hugmynd mína þá verstu sem hann hefði heyrt, hvorki meira né minna. Versta hugmynd í heimi að fjölga hjúkrunarfræðingum, lögreglumönnum, sjúkraliðum, kennurum, vísindafólki, sálfræðingum og öðrum stéttum sem gera svo margt fyrir okkur hin og fyrir samfélagið. Þetta lýsi miklum mun á hugmyndafræði. Ég átta mig á hversu mikilvægir opinberir starfsmenn eru. Þeir skapa ekki bara verðmæti í sjálfu sér heldur gera þeir einkaaðilum fært að skapa sín verðmæti.

Frú forseti. Stytting vinnuvikunnar er því ekki bara tækifæri til að minnka álag hjá opinberum starfsmönnum heldur er þetta einnig tækifæri til að búa til fleiri störf sem bæta í raun og veru þjónustuna við okkur öll. Það er sérstaklega góð hugmynd að taka þetta skref núna með myndarlegum hætti þegar okkur vantar störf. Hér blasir við tækifæri sem ég hvet ríkisstjórnina til að nýta sér.