151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

störf þingsins.

[13:18]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er vafalaust farin að ríkja sól í sinni landsmanna sem upplifa nú að við erum að fikra okkur út úr þessari kreppu og inn í venjubundið líf. Og ef það er eitthvað sem þessi faraldur á að kenna okkur, fyrir utan það auðvitað að samstaða almennings skiptir höfuðmáli, er það skakkt mat sem við höfum lagt á verðmæti starfa. Á heilbrigðisstofnunum, í umönnun og þjónustu, í skólum, ræstingum og víðar, hafa tugþúsundir unnið mjög erfitt og óeigingjarnt starf fyrir heildina. Álagið hefur verið gríðarlegt, vinnuaðstæðurnar erfiðar og talsverðar líkur á því að í einhverjum tilfellum muni það hafa áhrif á starfsfólk til langs tíma. Það sem einkennir svo þennan hóp er að hér er um að ræða það sem við köllum stundum hin hefðbundnu kvennastörf, störf sem hafa oft verið lægra metin en mörg sambærileg störf unnin af körlum. Af þessu þurfum við að draga lærdóma að lokinni kreppu og breyta. Það er auðvitað fyrst og fremst réttlætismál en það er líka nauðsynlegt til þess að tryggja að mögulegt verði að manna þessi störf til framtíðar.

Herra forseti. Svona rétt að lokum. Með mjög reglulegum hætti lesum við í blöðunum fréttir úr fjármálakerfinu eða víðar þar sem fólk fær bónusa fyrir alla mögulega og ómögulega hluti og suma jafnvel án þess að maður sjái að sérstök afrek liggi þar að baki. En í lok fyrstu bylgju veittu stjórnvöld starfsfólki heilbrigðisstofnana svokallað framlínuálag. Það var samt sorglega lítið og annað framlínufólk fékk ekki neitt. Nú held ég að það sé kominn tími til þess að við sýnum þessu fólki verðskuldað þakklæti, veitum því launauppbót í samræmi við gríðarlega ábyrgð og látum það verða fyrsta skrefið í að viðurkenna skakkt verðmætamat samfélagsins á störfum og breyta því svo í kjölfarið.