151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

Þingsköp Alþingis.

80. mál
[14:41]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langaði bara til að árétta það vegna fyrri ræðu að hér er ekki verið að innleiða neina skyldu, ekki verið að binda hendur þingflokka að neinu leyti. Hér er verið að færa í lög að líta eigi til ákveðinna sjónarmiða, sjónarmiða um kynjajafnrétti, það er öll róttæknin. Það er áhugavert að árið 2021 séu áhöld um það hvort Alþingi Íslendinga treysti sér til þess að líta til kynjasjónarmiða. Mér finnst skipta máli í þessu sambandi að líta til þess hver staðan er á Alþingi Íslendinga hvað varðar kynjahlutföll árið 2021 og hefur alltaf verið. Við höfum aldrei náð jöfnu kynjahlutfalli á Alþingi Íslendinga og engu að síður situr það í fulltrúum tveggja flokka að ætla að innleiða sjónarmið um kynjajafnrétti. Það finnst mér umhugsunarvert. Ég styð þetta mál.