151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[15:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í þessu máli er fjallað um nokkur aðskiljanleg mál sem varða lögregluna. Þetta er ekki heildarendurskoðun á lögum um lögreglu en þetta er breyting á nokkrum tilteknum þáttum. Þarna er m.a. fjallað um lögregluráð, það er fjallað um samstarf við erlend lögregluyfirvöld, þar á meðal það sem hv. þingmaður nefndi um að heimilt sé að veita erlendum lögreglumönnum lögregluvald hér á landi en þó algerlega á forsendum íslenskra yfirvalda og á grundvelli íslenskra laga og reglna. Síðan er fjallað um eftirlitsnefndina í þessu og ég verð að vera nokkuð ósammála hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni um hans mat á því. Það er verið að víkka út hlutverk eftirlitsnefndarinnar og í nefndaráliti er sérstaklega áréttað hversu mikilvægu hlutverki eftirlitsnefndin hafi að gegna og að skylda yfirvalda, lögregluembætta og annarra til að afhenda upplýsingar og annað sé ótvíræð og skýr, (Forseti hringir.) og það eru fleiri þættir í þessu. Þó að hér sé ekki um heildarendurskoðun að ræða eru það veruleg framfaraskref sem verið er að stíga í þessu og ég styð málið að sjálfsögðu.