151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp til að leiðrétta hv. þingmann sem talar um að við séum að opna fyrir einhvern krana í nýrri þjónustu við hælisleitendur. Með þessu frumvarpi er verið að tengja þá samninga sem fimm sveitarfélög hafa gert við Útlendingastofnun er varða þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem ég held að hv. þingmaður viti alveg um. Verið er að tengja Fjölmenningarsetrið til að það geti veitt þeim sveitarfélögum upplýsingar, hvaða þjónusta hentar eða hvaða sveitarfélag hentar þeim einstaklingi sem er að sækja um alþjóðlega vernd, hvort það hentar að fara á Akureyri eða annað slíkt. Ekki er í neinu verið að auka eða opna á einhverja þjónustu umfram það sem er. Það er alveg óskiljanlegt að það skuli vera hægt að lenda í þessum misskilningspytti því að með samræmdri móttöku erum við að styðja sveitarfélög til að veita betri þjónustu til þessa hóps sem við höfum þegar gert, þannig að réttu einstaklingarnir fái rétta þjónustu. Við erum einungis að tala um að bæta þá þjónustu sem við erum þegar búin að gera samninga um. Ég spyr bara: Er það slæmt?