151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir andsvarið. Svo ég taki beint upp úr framsöguræðu hæstv. ráðherra, af því að ég er ekki með frumvarpstextann með mér, ég verð með hann hér á eftir, þá segir hér, með leyfi forseta, og þetta er svarið við spurningunni, þ.e. hvað það er sem ég tel að sé þess valdandi að það verði eftirsóknarverðara fyrir hælisleitendur að sækja um alþjóðlega vernd hér á Íslandi að þessu frumvarpi samþykktu en núverandi staða segir til um, með leyfi forseta:

„… hefur verið unnið að samræmdri móttöku flóttafólks, óháð því hvort það kemur á eigin vegum, í gegnum alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum eða með samræmdri móttöku flóttafólks.“

Ég held að ef við horfum á fjölda umsókna um alþjóðlega vernd eins og staðan er í dag þá sjáum við að þetta er ekki samræmt. Það eru takmarkaðri réttindi sem einstaklingar njóta í dag sem koma á eigin vegum t.d. heldur en þeir sem falla undir kvótaflóttamannakerfið. Við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, gef ég mér.

Þannig að að þessu frumvarpi samþykktu verður búið að innleiða samræmda móttöku flóttafólks óháð því hvort það kemur á eigin vegum, í gegnum alþjóðlega vernd eða fær dvalarleyfi af mannúðarástæðum eða með samræmdri móttöku flóttafólks. Þeir hópar sem koma á eigin vegum munu þá njóta þeirra réttinda sem kvótaflóttafólkið hefur í dag. Og það er ástæðan fyrir því að ég tel að hvatinn og eftirspurnin, eftirsóknin fjöldi umsókna verði meiri að þessu frumvarpi samþykktu en án þess.

Ég vona að ég hafi svarað spurningunni.