151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:38]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er þá alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er t.d. búinn að vera hér undanfarin ár með ábyrgð á fjármálum ríkissjóðs án þess að lyfta litla fingri til að setja undir þennan krana. Án þess að lyfta litla fingri. Ég ætla að vísa, með leyfi forseta, áfram til ræðu hæstv. dómsmálaráðherra þar sem henni tókst á tveimur mínútum að lýsa þeirri stefnu að hér sé opinn krani á ríkissjóð, sem hv. þingmaður hefur nú staðfest. Síðan lýsir hún galopnum landamærum með eftirfarandi orðum, með leyfi forseta:

„En við þurfum auðvitað að hafa það alveg á hreinu að þeir sem leita eftir alþjóðlegri vernd og eiga rétt á henni […]“ — ég sleppi þarna úr nokkrum orðum — „munu fá alþjóðlega vernd ef þeir uppfylla þau skilyrði, sama hve margir það eru.“

Ég endurtek síðustu orðin: Sama hve margir það eru. Dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins lýsir því fyrir þingi og þjóð, og fyrir umheiminum sem heyrir það sem hér er sagt í þessum málum, að hér séu galopin landamæri. Og ég spyr: Hver er stefna Sjálfstæðisflokksins? Þeir sem leggja upp úr því að það sé einhver lágmarksstjórn á þessum málum, lágmarksstjórn á ríkisfjármálum og lágmarksstjórn hér á landamærunum, hvað eru þeir eiginlega að kjósa með því að greiða Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt?