151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:50]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Ég hef enga trú á að hægt sé að koma á vitrænni umræðu um þetta, a.m.k. ekki eins og staðan er núna. Ég var ekki í þverpólístísku nefndinni á sínum tíma en ég er í nefnd núna sem enginn veit eiginlega hvað er að gera. Ég veit það ekki heldur. Ég er ekki mjög trúaður á að við getum náð einhverri alvöruumræðu um þetta vegna þess að hún fer alltaf strax í þessar grafir. Við glímum við ákveðna pólitíska hugmyndafræði um að hér eigi bara að vera opið fyrir hvern sem er — eins og mátti heyra á ræðum sumra þingmanna í dag, aðallega tveggja — það sé bara stórgróði af því. En þá eru þeir líka sammála mér um að það þurfi að fella niður hælisleitendakerfið. Þá bara kemur hver sem er hingað. Þá verða menn að glíma við þann vanda. Hann verður ekkert minni. Ef menn líta á það sem stórgróða að hver sem er geti komið og við höfum ekkert um það að segja held ég að við séum í vondum málum. Við eigum auðvitað að stjórna því hverjir koma inn í okkar samfélag en við eigum ekki að hafna einhverjum af því að hann er útlendingur. Það er fjarri mér. Við eigum að hafa fjölbreytt samfélag í þeim skilningi að hingað komi fólk sem nýtist þessu samfélagi. En umræðan mun fara annað, ég veit það, hún gerir það alltaf. Nú er alla vega smátækifæri til þess að impra á þessu. Kannski fær maður á sig öfgastimpil. Ég hef fengið svo marga stimpla á mig að ég er alveg að verða ónæmur. Ég tek þennan bara á kassann eins og alla aðra.